Hoppa yfir valmynd
22. september 2011 Matvælaráðuneytið

Eftirlitsnefnd um sértæka skuldaaðlögun skilar þriðju skýrslu

Eftirlitsnefnd vegna aðgerða í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins skilaði efnahags- og viðskiptaráðherra þriðju skýrslu sinni 9. september sl. Í skýrslunni er fjallað um þau úrræði sem fjármálafyrirtæki hafa boðið skuldsettum heimilum og framkvæmd þeirra og loks bent á þau atriði sem betur mættu fara. Nefndin var sett á fót með lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja og kannar samræmi skuldaúrvinnslu við þau lög. Endurmat á endurútreikningum gengistryggðra lána var hins vegar falið embætti umboðsmanns skuldara.


Helstu niðurstöður nefndarinnar:

  • Nefndin hefur ekki orðið vör við annað en að innan hvers fjármálafyrirtækis séu sambærileg mál afgreidd með sambærilegum hætti í samræmi við lög, samkomulög og verklagsreglur.
  • Einstökum viðskiptavinum hefur ekki verið mismunað og starfsmenn fjármálafyrirtækjanna vinna af heilindum að því að finna lausn á skuldavanda einstaklinga.
  • Framkvæmd 110% leiðarinnar hefur gengið hægt, en hún er þó sambærileg hjá öllum fjármálafyrirtækjum, nema Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum.
  • Nefndin telur að 110% leiðin hefði mátt vera einfaldari og þar með fljótlegri í framkvæmd.  Ef miðað hefði verið við 110% af fasteignamati í stað markaðsvirðis ódýrari eigna, láta aðrar aðfararhæfar eignir ekki dragast frá niðurfærslu að ákveðnu marki og taka upp fríeignamark með fastri fjárhæð, hefði mátt einfalda og flýta málum. Fríeignamat ætti að miðast við ákveðna fjárhæð, en ekki við ráðstöfunartekjur. Meta ætti aðrar aðfararhæfar eignir á raunvirði/markaðsvirði þegar miðað er við markaðsvirði fasteigna. Þeir sem hafa fengið mál sín afgreidd ættu að eiga þess kost að fá endurmat ef verðmat annarra aðfararhæfra eigna hafði áhrif á fyrri niðurstöðu.
  • Vert er að minna á að samstaða var í félags- og tryggingamálanefnd Alþingis um að ekki skyldi gengið lengra en gert var um heimildir Íbúðalánasjóðs til þátttöku í 110% leiðinni og lífeyrissjóðirnir telja eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar girða fyrir að þeir gangi lengra.
  • Nefndin gagnrýnir að lántakar með lánsveð hjá þriðja aðila fá minni skuldaniðurfellingar en þeir sem voru með 80-100% lán hjá bönkunum.
  • Fjármálafyrirtækin hafa forðast að beita sértækri skuldaaðlögun vegna þeirrar miklu vinnu sem liggur að baki henni. Hafa þau oft veitt einfaldari niðurfellingar, þó að þær séu ekki eins markvissar.
  • Beingreiðslur og styrkir þeir sem landbúnaðarkerfið tryggir bændum gera endurskipulagningu skulda þeirra erfiðari. Það sama gildir um kerfislægt ofmat á virði jarða og kvóta, sem leiðir til lítilla eða engra afskrifta skulda bænda.
  • Lýsing hefur hafnað aðkomu að Beinu brautinni, sem torveldar afgreiðslu mála fyrirtækja.

 

Helstu tillögur nefndarinnar eru:

  • Fjármálafyrirtæki eiga að framkvæma ítarlegt stöðumat eða greiðsluerfiðleikamat hjá viðskiptavinum sem leita til þeirra vegna fjárhagserfiðleika. Í framhaldinu verði viðskiptavinum kynnt þau úrræði sem í boði eru.
  • Fjármálafyrirtæki skulu kynna umsókn um sértæka skuldaaðlögun á heimasíðum sínum.
Skýrsla nefndarinnar í heild sinni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta