Kerecis umbreytir fiskroði í hátækni-lækningavörur
Verðmætin leynast víða og nú hefur fyrirtækið Kerecis þróað aðferð til að umbreyta fiskroði í verðmætar lækningavörur undir heitunum MariGen™ og MariCell™ til meðhöndlunar á sköðuðum vef og húð. Fyrirtækið opnaði í dag fullkomna lækningavöruverksmiðju á Ísafirði og uppfyllir hún allar kröfur Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins og Evrópusambandsins.
Grunntæknin á bak við vörurnar byggir á því að nota kollagen og omega3 olíur úr roði af eldisþorski. Þorskurinn er unninn í frystihúsinu á hefðbundinn máta og Kerecis meðhöndlar síðan roðið efnafræðilega þannig að m.a. allar frumur og önnur efni sem valdið geti ofnæmi eru fjarlægð. Eftir stendur græðandi efni sem notað er í MariGen vörurnar fyrir þrálát sár og kviðslit.
Efnið er einnig unnið áfram og notað í MariCell kremin en vörulínan samanstendur í fyrstu í upphafi af þremur kremum sem ætluð eru til meðhöndlunar á; ofurþurrum- og sprungnum fótum, rauðri og þrútinni húð og þurri flagnandi húð. Vörurnar koma á markað á Íslandi í október og verða seldar hjá fótaaðgerðafræðingum og í völdum apótekum um land allt. Áætlað er að sala hefjist á erlendum mörkuðum í ársbyrjun 2012.
Þegar efnið er t.d. notað til að meðhöndla þrálát sár er það klipt niður þ.a. það passi í sárið og lagt beint ofaní það. Sáraumbúð er svo sett ofaná. Frumur úr jöðrum sársins „skríða“ þá inní efnið og búa um sig þar og skipta sér og mynda frumuhneppi og loks samfelldan nýjan líkamsvef.
Kerecis var stofnað árið 2007 en verkefni félagsins komust fyrst á flug í kjölfar Tækniþróunarstyrks sem veittur var um mitt ár 2009. Framleiðsla og þróun er staðsett á Ísafirði en prófanir og markaðssetning í Reykjavík og starfa 11 manns hjá fyrirtækinu.
Nánar á kerecis.is