Hoppa yfir valmynd
22. september 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra opnar Sigríðarstíg við Gullfoss

Umhverfisráðherra opnar Sigríðarstíg
Umhverfisráðherra opnar Sigríðarstíg

Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, opnaði í gær við Gullfoss fræðslustíg sem kenndur er við Sigríði í Brattholti. Á Sigríðarstíg eru fjölmörg upplýsingaskilti um fossinn og Sigríði í Brattholti og baráttu hennar fyrir verndun þessarar náttúruperlu.

Með umbótum sem gerðar hafa verið á aðgengi ferðamanna að undanförnu við Gullfoss undir umsjón Umhverfisstofnunar og opnun Sigríðarstígs verða upplýsingar aðgengilegar öllum, allt árið um kring á fjórum tungumálum.

Sigríður Tómasdóttir fæddist þann 24. febrúar 1871 í Brattholti og lést árið 1957. Auk almennra bústarfa og leiðsagnar með ferðamenn að Gullfossi, lagði hún stund á hannyrðir og teikningu. Þekktust er hún hins vegar fyrir ómetanlega baráttu í þágu náttúruverndar og þá sérstaklega baráttuna fyrir verndun Gullfoss.

Gullfoss. Mynd: Simon Cole.Gullfoss og næsta nágrenni vestan Hvítár var friðlýst árið 1979 og er svæðið einn fjölsóttasti áningarstaður ferðamanna hér á landi.

Í skýrslu sem Umhverfisstofnun tók nýlega saman að beiðni umhverfisráðuneytisins kom fram að ástand margra vinsælla áningarstaða ferðamanna væri slæmt. Í kjölfar skýrslunnar óskaði umhverfisráðherra eftir fjármagni til framkvæmda á friðlýstum svæðum og samþykkti ríkisstjórnin í vor að veita 41,9 m. kr. til brýnna verkefna, m.a. til að viðhalda verndargildi svæðanna.

Stór hluti þessa viðbótarframlags, 17,5 m.kr., hefur farið til brýnna framkvæmda við Gullfoss, s.s. stækkun útsýnispalls, nýjan göngustíg á neðra plani til að bæta aðgengi fyrir fatlaða og nauðsynlegan frágang á helstu göngusvæðum við fossinn. Til grannsvæðisins Geysis í Haukadal renna 3,3 m. kr. til brýnna framkvæmda.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta