Skilyrði ESB og valdamörk ráðherra
Jón Bjarnason skrifar:
Um skilyrði ESB og valdmörk ráðherra
Nú á haustdögum sendi Evrópusambandið frá sér svokallaða rýniskýrslu um landbúnað og samhliða setti sambandið Íslandi skilyrði fyrir því að hefja viðræður um landbúnaðarkafla aðildarsamnings. Vegna mikillar umræðu um skilyrði ESB og skyldur einstakra ráðherra í aðildarviðræðunum er rétt að koma eftirfarandi á framfæri.
Hefur ESB viðurkennt kröfur Íslands?
Í rýniskýrslunni er farið yfir stöðu mála í landbúnaði á Íslandi og svo langt sem sú lýsing nær þá er hún í öllum aðalatriðum rétt og lýsir aðstæðum hér. Að því leyti viðurkennir Evrópusambandið þá sérstöðu sem íslenskur landbúnaður á við að búa í dag, m.a. hvað varðar fábreytni í framleiðslu þar sem hér er ekki stunduð kornrækt í neinni líkingu við það sem er í löndum ESB svo dæmi sé tekið. Skýrslan kemur einnig inn á að hér er landbúnaðarkerfið mjög frábrugðið því sem er í Evrópusambandinu. En í texta framkvæmdastjórnarinnar er hvergi vikið að neinni tilslökun gagnvart því að Ísland taki að fullu yfir það stjórnkerfi sem gildir um landbúnað í Evrópu. Þar segir:
Við aðild Íslands að ESB verður Ísland að tryggja beitingu og framkvæmd á réttarreglum ESB um landbúnað og dreifbýlisþróun. Þetta mun sér í lagi útheimta að Ísland beiti ESB-reglum um beingreiðslur og tryggi að komið verði á skipulagi sameiginlegs markaðar fyrir hinar ýmsu landbúnaðarafurðir. Þetta mun krefjast verulegrar aðlögunar að gildandi lögum og stjórnarháttum.
Skilyrði Íslands borin saman við skilyrði Króatíu
Ein veigamestu tíðindi þessarar skýrslu eru að mínu mati þau að Evrópusambandið kýs að beita okkur svonefnum opnunarskilyrðum til að samingaviðræður um landbúnað og dreifbýlisþróun geti hafist. Slíkt er þó ekki nýlunda í samningaviðræðum nýrra ríkja um inngöngu. Þannig voru Króatíu sett skilyrði um að bæta úr hagskýrslugerð í landbúnaði til að samningar gætu hafist um landbúnað og fjögur önnur fyrir því að samningum um hann gæti lokið. Eitt þeirra var um stofnun s.k. greiðslustofu, sem Króatar hafa þegar stofnað þó aðild hafi ekki verið samþykkt þar í landi. Áætlað er að 518 manns starfi við hina nýju stofnun Króata.
Þau opnunarskilyrði, sem á okkur eru sett af hálfu ESB eru á vissan hátt víðtækari, því Íslandi er gert skylt að leggja fram áætlun um á hvern hátt það ætli að taka yfir hina almennu landbúnaðarstefnu ESB ef til aðildar kemur. Væntanlega þarf slík áætlun að fela í sér tímaáætlun um hvaða stofnanir verði settar á laggirnar og um lagaramma. Þá þarf að koma hér á landupplýsingakerfi í samræmi við IACS kerfi ESB og samræma allt stjórnkerfi við hið breytta fyrirkomulag.
Ekkier að sjá að hér sé gefinn mikill slaki á kröfum ESB vegna smæðar landsins eða þess að hér er bændastéttin fámenn miðað við það sem gerist með milljónaþjóðum. Þannig segir t.d. um svokallaða greiðslustofnun sem er einn af þeim þáttum sem Ísland verður að koma upp:
Greiðslustofnun aðildarríkis verður að fara eftir faggildingarviðmiðunum ESB án tillits til stærðar hennar og/eða verkefna sem hún framkvæmir.
Þau opnunarskilyrði sem ESB setur koma verulega á óvart þegar haft er í huga að á rýnifundi um landbúnaðarkaflann, sem fór fram í Brussel 27. janúar s.l. gaf íslenska samninganefndin út sérstaka yfirlýsingu um málið miðað við þá ákvörðun Íslands að breyta ekki íslenskri stjórnsýslu, eða lögum fyrr en fyrir liggur að aðildarsamingur hafi verið samþykktur í þjóðaratkvæagreiðslu. Í yfirlýsingu samninganefndarinnar var því lýst að Íslandi verði unnt að gera allar nauðsynlegar laga og stjórnsýslubreytingar þannig að allt verði til reiðu frá gildistöku aðildar. Nú liggur fyrir að slík yfirlýsing er ekki fullnægjandi að mati framkvæmdastjórnar ESB.
Valdið er Alþingis
Sé Íslandi ætlað að leggja nú fram heildstæða áætlun um lagabreytingar sem síðan verði að veruleika eftir samþykki aðildar, þá hefur það áhrif á stöðu okkar. Almennt getur Alþingi og ríkisstjórn farið mismunandi leiðir að settu marki og hefur þar ákveðið frelsi til ákvarðana, einnig þegar kemur að því að uppfylla samninga við erlend ríki. En sé svo að ríkisstjórnin hafi þegar lagt fyrir erlend ríki áætlun um það hvernig þetta verði gert þá hefur slík áætlun sjálfstætt lagabindandi gildi gagnvart Evrópusambandinu og getur þá beinlínis skert sjálfræði þess þings sem ókjörið er.
Einnig ber hér að hafa í huga að áætlunargerð eins og hér er rætt um má á engan hátt skerða samningsstöðu Íslands í viðræðunum. Í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar er einmitt tiltekið að Ísland skuli láta á það reyna breyta ekki atriðum sem hér er svo aftur á móti tiltekið að Ísland sýni fram á hvernig það geti, vilji og muni breyta við inngöngu.
Hér koma því til álita valdmörk framkvæmdavaldsins gagnvart Alþingi og það verður því fyrsta verk mitt í þessu máli sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leita svara hjá framkvæmdastjórninni hversu almenn eða ítarleg áætlun okkar í landbúnaðarmálum á að vera. Fyrr en það liggur fyrir er ekki raunhæft að ráðast í gerð hennar.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið mun hér eftir sem hingað til fara að samþykktum Alþingis, hvort sem mál varða aðildarumsókn að ESB eða önnur verkefni sem því eru falin. Í þessu máli er afar mikilvægt að halda fast á hagsmunum Íslands.
Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra