Styrkir úr tónlistarsjóði
Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki úr tónlistarsjóði.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki úr tónlistarsjóði, samkvæmt lögum um tónlistarsjóð nr. 76/2004 sbr. og reglum nr. 125/2005, til verkefna sem efnt verður til á tímabilinu janúar til ágúst 2012. Næst verður auglýst eftir umsóknum í apríl 2012 vegna verkefna á síðari hluta árs 2012.
Hlutverk tónlistarsjóðs er að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, tónlistardeild og markaðs- og kynningardeild. Nánari upplýsingar um hlutverk sjóðsins, úthlutunarreglur, umsóknir og mat á þeim eru á vef menntamálaráðuneytisins.
Öll tilskilin fylgigögn þurfa að berast með umsókn. Að öðrum kosti eru umsóknir ekki teknar til umfjöllunar. Minnt er á að styrkþegar úr fyrri úthlutunum þurfa að hafa skilað inn greinargerð vegna þeirra verkefna áður en nýjar umsóknir eru teknar til umfjöllunar.
Gert er ráð fyrir að umsóknir hljóti afgreiðslu tónlistarráðs innan tíu vikna frá auglýstum skilafresti. Við mat á umsóknum er m.a. tekið tillit til listræns gildis og mikilvægis verkefnis fyrir almenna tónlistarstarfsemi og eflingu íslenskrar tónlistar, gildi og mikilvægis verkefnis fyrir kynningu og markaðssetningu íslenskrar tónlistar, starfsferils, faglegs og/eða listræns bakgrunns umsækjanda og fjárhagsgrundvallar verkefnisins.
Umsóknum skal skila á þar til gerðum eyðublöðum sem fást í mennta- og menningarmálaráðuneytinu eða á vef þess.
- Umsóknir skulu vera í þríriti og öll eintök undirrituð.
- Umsóknarfrestur rennur út þriðjudaginn 1. nóvember 2011.
Umsóknir skal senda á póstfangið:
Mennta- og menningarmálaráðuneytið
tónlistarsjóður
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík.
Nánari upplýsingar veitir Ásta Ingólfsdóttir á skrifstofu menningarmála, sími: 545-9500