Hoppa yfir valmynd
23. september 2011 Utanríkisráðuneytið

Íslensk eldfjallaaska og kínversk glerbrot á Múrnum

Gudrun-Kristjansdottir-kinverskir-nemar-(Small)
Gudrun-Kristjansdottir-kinverskir-nemar-(Small)

Guðrún Kristjánsdóttir listamaður er þessa dagana að vinna að útilistaverki í miðborg Peking með nemendum úr Listakademíu Pekingborgar. Verkið hefur hlotið heitið Múrinn og er hluti af  árlegri norræn-kínverskri listahátíð NOTCH í Peking sem verður formlega sett á morgun.  Guðrún tók þátt í listahátíðinni "Upptaktur" sem sendiráð Íslands í Peking skipulagði í fyrra í samvinnu við íslenskar og kínverskar kynningarmiðstöðvar og listahátíðar.  Listsköpun Guðrúnar vakti athygli sýningarstjóra á vegum NOTCH sem buðu henni þátttöku á listahátíðinni í ár.

Á Múrnum kristallast átök eyðingarafla og skapandi krafts. Askan úr nýlegu íslensku eldgosi var flutt alla leið til Kína til að minna á mikilvægi þess að virða og skilja hringrás náttúrunnar og leggja sitt af mörkum við að nýta hættulegt efni eins og ösku á skapandi hátt. Eins er í verkinu verið að varpa ljósi á mikilvægi þess að endurnýta affall nútímasamfélaga. Á húsgafli rétt sunnan við Torg hins himneska friðar mynda nú glerbrotin sindrandi snjóform í svartri öskuhlíð. 

The-wall-AFTER-the--art-piece-is-made-(digital-image)-(Medium)Í viðtali við kínverska fjölmiðla nú nýverið sagðist Guðrún vonast til að verkið minni á samspil manns og náttúru og verði áminning um að virkja hið skapandi afl í sátt við náttúruna. Hún sagðist vona að með dyggri aðstoð listnemanna takist henni að varpa ljósi á átök skapandi og eyðandi afla en mynda um leið einhverskonar jafnvægi á veggnum í anda hinnar forn-kínversku speki um Yin og Yang. Hún segir að efnið sjálft ráði miklu um útkomuna og að hún hafi að undanförnu verið að rannsaka eigindir ösku og glers í þeirri von að geta nýtt þau á þennan hátt.

Guðrún Kristjánsdóttir hefur í yfir 20 ár unnið af einurð sem listamaður en jafnframt sem listrænn stjórnandi, ritstjóri, fyrirlesari og um tíma sem formaður Félags íslenskra myndlistarmanna. Hún hefur sýnt reglulega á Íslandi og í New York en einnig í Evrópu og Asíu. Hún hefur unnið til ýmissa verðlaun og styrkja og ber þar helst að nefna Pollock-Krasner sjóðinn en viðurkenninguna hlaut hún meðal annars fyrir áhugaverða nálgun við málverkið og fyrir nýstárlegar tilraunir sínar með hina fornu aðferð við að mála í mörgum lögum.

Guðrún hefur með samspili ólíkra miðla reynt að höndla kjarna hinna sífelldu umhleypinga íslenskrar náttúru. Í innsetningum sínum gerir hún gjarnan tilraunir með málverkið og blandar saman málun, myndböndum, prenti, ljósi og tónlist og myndar umlykjandi rými sem sýnir í nýju ljósi hið flókna en um leið hversdagslega samband skynjunar, lista og náttúru.

NOTCH hátíðin er að þessu sinni tengd hönnunarvikunni í Peking sem opnar nk. sunnudag, en í henni tekur þátt  Goddur,  Guðmundur Oddur  Magnússon, grafískur hönnuður og prófessor við Listaháskóla Íslands.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta