Drög að frumvarpi til breytinga á lögum um loftferðir til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að frumvarpi til breytinga á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum. Þeir sem óska geta sent umsagnir sínar á netfangið [email protected] fram til 11. október 2011.
Með frumvarpi þessu eru gerðar tillögur til breytinga á nokkrum ákvæðum laga um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum. Um er að ræða breytingar og lagfæringar sem komið hafa í ljós við framkvæmd laganna og sem m.a. hafa verið tilefni athugasemda erlendra úttektaraðila hér á landi. Styrktar eru ýmsar heimildir Flugmálastjórnar s.s. í neytendamálum, til gjaldtöku og eftirlits og ákvæði sett vegna innleiðingar Evrópureglugerða sem og annarra alþjóðlegra skuldbindinga. Frumvarpið var unnið í samvinnu sérfræðinga innanríkisráðuneytisins og Flugmálastjórnar Íslands.
Helstu breytingar frumvarpsins eru eftirfarandi:
- Óska þarf eftir heimild Flugmálastjórnar Íslands til starfrækslu loftfars í almannaflugi sem skráð er í þriðja ríki, sbr. 3. gr.
- Flugmálastjórn Íslands er veitt heimild til að kveða á um umfang skuldbindinga flugvalla sem af alþjóðasamingum á sviði flugmála leiðir, sbr. 7. gr.
- Lagt er til ákvæði um skipun flugvirktarráðs sem skal m.a. vera samráðsvettvangur opinberra aðila og annarra um framkvæmd, samvinnu, samhæfingu og áætlanagerð á sviði flugvirktar, sbr. 8. gr.
- Rekstraraðila flugvallar er veitt heimild til að þjálfa og nota leitarhunda til aðstoðar við framkvæmd flugverndar á flugvöllum, sbr. 10. gr.
- Starfræksla ríkisloftfara er undanskilin ákvæðum loftferðalaga, sbr. 12. gr.
- Lagt er til að ábyrgð flytjanda á tjóni sem orsakast af töfum á flutningi nái einnig til tjóns sem verður vegna þess að flugi hefur verið flýtt, sbr. 14. gr.
- Flugmálastjórn er veitt heimild til að innheimta gjald af eftirlitsskyldum aðilum vegna kostnaðar af kvörtunum í neytendamálum, sbr. 16. gr.
- Eftirlitsstofnun EFTA er veitt heimild til að leggja sektir á fyrirtæki sem hafa skírteini útgefin af Flugöryggisstofnun Evrópu, sbr. a.-lið 17. gr.
- Flugmálastjórn og þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu er veitt heimild til að aftra för loftfars af flugvelli vegna vangreiddra gjalda á grundvelli laga um losun gróðurhúsalofttegunda, sbr. b.-lið 17. gr.
- Kveðið á um heimild Flugmálastjórnar til að annast úthlutun réttinda og veitingu heimilda vegna loftferðasamninga og annarra samninga sem ríkisstjórnin gerir við stjórnir annarra ríkja og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir. Flugmálastjórn er veitt heimild til að binda nýtingu þeirra þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru talin. Einnig er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð þar sem m.a. skal nánar kveða á um þau sjónarmið sem leggja skuli til grundvallar við slíka úthlutun, sbr. 18. gr.
Drög að frumvarpi til breytinga á lögum um loftferðir nr. 60/1998