Eru vaxtarmöguleikar sjávarútvegsins á þurru landi?
Íslenski sjávarklasinn er samstarfsverkefni margra fyrirtækja í haftengdri starfsemi sem hefur það að markmiði að bæta samstarf, auka verðmæti og efla skilning á mikilvægi samvinnu fyrirtækja á öllum sviðum haftengdrar starfsemi.
Unnin er að kortlagningu á allri starfsemi sem snýr að hafinu sem leiðir í ljós hversu fjölbreytt hún er. Samkvæmt greiningu Íslenska sjávarklasans liggja vaxtarmöguleikar íslensks sjávarútvegs aðeins að takmörkuðu leyti í hefðbundnum veiðum og sjósókn. Möguleikarnir sem felast í frekari vinnslu sjávarafurða, fiskeldi, rannsóknum og nýsköpun, til líftækni og hátækniframleiðslu, flutningastarfsemi, haftengdri ferðaþjónustu, fjármálastarfsemi og viðgerðar- og viðhaldsþjónustu eru hins vegar gríðarlegir.
Kortlagningin leiðir t.d. í ljós hvernig samstarf sjávarútvegs og tæknifyrirtækja hefur skilað sér í tugum sjálfstæðra
tæknifyrirtækja í sjávarklasanum sem stunda eigin útflutning og er áætlað velta þeirra nemi um 26 milljörðum.
Spá um þróun starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum sýnir að ef Íslendingum tekst að þróa áfram þennan geira og aðra sjálfstæða sjávartengda útflutningsstarfsemi geti það hafa í för með sér að störfum í greininni fjölgi um hátt í 10.000 fram til ársins 2025.
Íslenski sjávarklasinn er afsprengi af rannsóknum í Háskóla Íslands og er verkefnið vistað hjá Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands. Meðal verkefna sem eru handan við hornið hjá Íslenska sjávarklasanum má nefna útgáfu
skýrslu um efnahagslegt umfang sjávarklasans sem væntanleg er í október, rit um kortlagningu sjávarklasans í
nóvember, stórfundur í höfuðstöðvum Marels í nóvember, stofnun félags um Hús Sjávarklasans á Granda auk viðamikillar stefnumótunarvinnu í samráði við Netspor.