Efling stoðkerfis atvinnulífsins
Ráðherra og forstöðumenn Byggðastofnunar, Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands skrifuðu nýverið undir stofnskjal verkefnisins „Efling stoðkerfis atvinnulífsins“. Markmiðið er að ráðuneytið og stofnanirnar myndi enn samstæðari heild sem búi yfir meiri sveigjanleika og meira afli til að bregðast við vaxandi þörfum atvinnulífsins fyrir endurnýjun og nýsköpun.
Síðastliðið haust var ráðist í vinnu við að greina stoðkerfi atvinnulífs og nýsköpunar á vegum iðnaðarráðuneytis með þarfir atvinnulífsins að leiðarljósi. Könnunin leiddi í ljós að það er þörf fyrir aukinn sveigjanleika, einföldun og styrkingu stoðkerfisins.
Í ræðu á aðalfundi Byggðastofnunar í haust gerði Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra grein fyrir hugmyndum sínum hvernig bæta megi þjónustu þess hluta stoðkerfisins sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið.
„Til greina kemur að fella starfsemi allra þriggja í ein lög, án þess að einkenni hvers og eins tapist. Þannig verði áfram til Ferðamálastofa, Byggðastofnun og Nýsköpunarmiðstöð sem öll vinna að sömu markmiðum í nánu samstarfi en viðhalda sérþekkingu sinni og sérstöðu. Nýskipunin felst því fyrst og fremst í því að mynda samstæða heild, sem hefur meiri sveigjanleika og meira afl til að bregðast við vaxandi þörfum atvinnulífsins fyrir endurnýjun og nýsköpun.“
Verkefnið „Efling stoðkerfis atvinnulífsins“ er tæki til að ná þessum markmiðum og er markmiðið fyrst og síðast að styrkja stoðkerfið og nýta þannig betur opinbert fjármagn sem varið er af fjárlagaliðum iðnaðarráðuneytis til málefna sem tengjast atvinnuþróun, atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og byggðamálum.