Hoppa yfir valmynd
6. október 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Til leikskóla vegna nýrrar aðalnámskrár

Nýjar áherslur í aðalnámskrám allra skólastiga felast m.a. í sex grunnþáttum í menntun, þar sem lögð er áhersla á persónuleg og samfélagsmiðuð gildi almennrar menntunar.

Í framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um leikskóla, nr. 90/2008, grunnskóla, nr. 91/2008 og framhaldsskóla, nr. 92/2008 hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að innleiðingu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Undirstöðuatriði í þeirri vinnu er útgáfa nýrrar aðalnámskrár fyrir skólastigin þrjú. Ráðherra hefur nú staðfest nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla með birtingu auglýsinga í Stjórnartíðindum.

Nýjar áherslur í aðalnámskrám allra skólastiga felast m.a. í sex grunnþáttum í menntun, þar sem lögð er áhersla á persónuleg og samfélagsmiðuð gildi almennrar menntunar á skólastigunum þremur.  Grunnþættirnir eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þeir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa.  Þeim er ætlað að undirstrika meginatriði í almennri menntun og stuðla að meiri samfellu í öllu skólastarfi. Grunnþættir í menntun eru:  Læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun.

Grunnþættirnir eru skilgreindir í sameiginlegum inngangskafla í aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þeir eru leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum í leikskólum.

Aðalnámskrá leikskóla er fagleg stefnumörkun um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólans. Þar er lýst markmiðum leikskólastarfsins og leiðum að settu marki. Námskráin er leiðarvísir fyrir alla sem vinna að uppeldi og menntun barna í leikskólum og er sveigjanlegur rammi um störf þeirra. Aðalnámskrá leikskóla er einnig upplýsandi fyrir foreldra og forráðamenn um hlutverk og starfsemi leikskóla. Áhersla er lögð á styrkleika barna og hæfni og virðingu fyrir margbreytileika mannlífsins. Uppeldi, umönnun og menntun mynda þar eina heild.

Í nýrri aðalnámskrá leikskóla er m.a. fjallað um inntak og skipulag leikskólastarfsins.  Þar eru skilgreind leiðarljós sem vísa hverjum leikskóla veginn í  mótun leikskólastarfs. Megináherslur í nýrri aðalnámskrá leikskóla eru á lýðræði, jafnrétti, velferð og samskipti. Hvatt er til þess að leikurinn sé nýttur á markvissan og skapandi hátt í samþættu uppeldi og námi barna. Námssvið leikskóla og daglegar athafnir skapa heildstæðan ramma um uppeldi og menntun. Námssviðin tengjast  grunnþáttum menntunar og skiptast í eftirfarandi áhersluþætti: Læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi, sköpun og menningu.

Þátttaka fjölskyldunnar í leikskólastarfinu skiptir miklu máli og samstarfið þarf að byggja á gagnkvæmum skilningi og virðingu. Þátttökumiðað mat á námi barna og vellíðan á að tryggja að hlustað sé á rödd barna og að réttindi þeirra séu virt. Það á einnig við um mat á starfi leikskóla.

Ráðgert er að aðalnámskrá leikskóla verði fylgt eftir af hálfu ráðuneytisins m.a. með kynningu, útgáfu þemahefta um grunnþætti í menntun, þróunarstarfi og endurmenntun.

Ráðuneytið hvetur starfsfólk leikskóla og alla hagsmunaaðila til að kynna sér vel nýja aðalnámskrá  og hefja vinnu við  innleiðingu hennar. Vonast ráðuneytið til góðs samstarfs við skólasamfélagið í þeirri vinnu.

  •  Nýjar aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru aðgengilegar á vef ráðuneytisins

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta