Tillögur nefndar um eignarhald á fjölmiðlum
Nefnd, skipuð fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, um eignarhald á fjölmiðlum hefur lokið störfum og kynnt mennta- og mennningarmálaráðherra niðurstöður sínar.
Helstu atriði:- Samstaða um tillögur í þverpólitískri nefnd um eignarhald á fjölmiðlum.
- Lagt til að samkeppnisyfirvöld fái auknar heimildir til afskipta vegna samþjöppunar á fjölmiðlamarkaði.
- Frumvarp verður lagt fram á haustþingi.
Nefnd, skipuð fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, um eignarhald á fjölmiðlum hefur lokið störfum og kynnt mennta- og mennningarmálaráðherra niðurstöður sínar. Tillögur nefndarinnar eru formi frumvarps til laga um breytingar á fjölmiðlalögum nr. 38/2011. Allir fulltrúar í nefndinni standa að tillögum, en fulltrúi þingflokks Framsóknarflokksins skrifar undir með þeim fyrirvara að hann vill ganga nokkuð lengra við reglusetningu en aðrir fulltrúar í nefndinni.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun undirbúa tillögur nefndarinnar til framlagningar á Alþingi nú á haustþingi.
Megin niðurstöður nefndarinnar eru að þörf sé á því að taka upp í lög ákvæði sem miða að því að sporna við samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum. Þá er niðurstaða nefndarinnar að setja beri slíkar reglur í formi matskenndra heimilda af samkeppnisréttarlegum toga fremur en ákveðnar hlutfallsreglur (statisk viðmið). Tillögur þessar hafa verið útfærðar í samráði við sérfræðinga Samkeppniseftirlitsins. Þær fela í sér verulega auknar heimildir samkeppnisyfirvalda til þess að grípa inn í óheppilega samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum ef hún vinnur gegn markmiðum um fjölræði og fjölbreytni.
Mennta- og menningarmálaráðherra skipaði nefndina þann 6. apríl 2011. Nefndinni var falið að vinna tillögur um eignarhald á fjölmiðlum og skila þeim í formi frumvarps. Í starfi sínu hefur nefndin aflað viðamikilla upplýsinga og gagna og fundað með fjölda hagsmunaaðila. Formaður nefndarinnar er Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður og dósent og varaformaður hennar er Elfa Ýr Gylfadóttir sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Auk þeirra skipuðu nefndina Björn Þorláksson blaðamaður og rithöfundur tilnefndur af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs; Einar Már Sigurðarson skólastjóri, tilnefndur af þingflokki Samfylkingar; Svanhildur Hólm Valsdóttir framkvæmdastjóri, tilnefnd af þingflokki Sjálfstæðisflokks; Salvör Gissurardóttir lektor, tilnefnd af þingflokki Framsóknarflokks og Baldvin Björgvinsson raffræðingur og kennari, tilnefndur af þinghópi Hreyfingarinnar.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun leggja fram frumvarp til laga um breytingar á fjölmiðlalögum nr. 38/2011, sem byggist á tillögum nefndarinnar, á haustþingi 2011.
Tilkynningunni fylgja tillaga nefndarinnar og bókun fulltrúa þingflokks framsóknarflokks.