Hugvitið er næsta stórvirkjun þjóðarinnar
„Upphaf og stundum endir í umræðum um atvinnumál á Íslandi er ál eða fiskur og jafnvel um stund var það alþjóðafjármálamiðstöð. Í umræðunni var gjarna talað niður til annarra kosta í atvinnuuppbyggingu sem kallað var „eitthvað annað“ þegar Kárahnjúkavirkjun var lausnarorðið. Á þessu tækniþingi er einmitt „eitthvað annað“ til umræðu.“
„Við vitum að sjávarafla eru takmörk sett af náttúrunnar hendi. Náttúran setur líka uppbyggingu í orkufrekum iðnaði takmörk til framtíðar, því vænlegir virkjanakostir, hvort sem horft er frá fjárhagslegu eða umhverfissjónarmiði eru ekki óendanlegir. Stóriðja og sjávarútvegur eru hluti af lausninni en engin allsherjarlausn.“
Þetta sagði forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir í setningarávarpi sínu á Tækni og hugverkaþingi 2011, sem haldið var í dag undir yfirskriftinni Nýsköpun - uppspretta verðmæta. Ráðherra kom víða við í ávarpi sínu og hvatti atvinnulífið og menntastofnanir landsins til dáða, enda væru tækifærin til nýsköpunar lítt takmörkuð og hugvitið ætti að verða næsta stórvirkjun þjóðarinnar. Markmið stjórnvalda sagði hún skýrt: „... að hér verði til fjölbreytt og vel launuð störf sem standast alþjóðlegan samanburð og að ungir Íslendingar þurfi aldrei að velkjast í vafa um að framtíð þeirra er best borgið á Íslandi.“
„Það er rangt að valið sé á milli atvinnuuppbyggingar og umhverfisverndar. Það sýna rannsóknir á græna hagkerfinu. Á því sviði höfum við mýgrút tækifæra til að skapa græn og vellaunuð störf og þar vísa ég í nýlega skýrslu um nefndar um græna hagkerfið. Allt ber að sama brunni; fjölbreytni í okkar atvinnulífi er að aukast og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar beinist að því.“
Í ávarpi sínu fjallaði ráðherra einnig um starfsumhverfi atvinnulífsins og sagði m.a.: „Starfsskilyrði atvinnulífsins eru sannarlega mikilvægt og viðvarandi verkefni stjórnvalda. Í því efni skiptir fyrirkomulag peninga- og gengismála sköpum. Króna sem innpökkuð er í gjaldeyrishöft útávið og varin af verðtryggingu innávið er ekki góður kostur til framtíðar. Slíkt fyrirkomulag peningamála mun trauðla gagnast til kröftugrar atvinnuuppbyggingar og gæti leitt til þess að íslensk fyrirtæki flytji höfuðstöðvar sínar til útlanda, en það er m.a. til umræðu hér á þinginu. Innganga í Evrópusambandið og upptaka evru er að mínu mati besti kosturinn í þessum efnum og felur jafnframt tvímælalaust í sér sóknarfæri fyrir íslensk sprotafyrirtæki.“