Hoppa yfir valmynd
7. október 2011 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra skipar starfshóp til að fara yfir Guðmundar- og Geirfinnsmál  

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir svonefnd Guðmundar- og Geirfinnsmál. Starfshópurinn skal skila ráðherra áfangaskýrslu fyrir lok apríl á næsta ári.

Innanríkisráðherra kynnir skipun starfshóps til að fara yfir Guðmundar- og Geirfinnsmál.
Innanríkisráðherra kynnir skipun starfshóps til að fara yfir Guðmundar- og Geirfinnsmál.

Ögmundur sagði á fundi með blaðamönnum í morgun að almenningur hafi látið sig Guðmundar- og Geirfinnsmálið varða. „Þannig hef ég í þessari viku fengið í hendur 1190 undirskriftir þar sem krafist er rannsóknar og endurupptöku þessara mála. Þá hafa þau sjónarmið ítrekað komið fram að margt hafi farið svo alvarlega úrskeiðis við rannsókn málsins að það varði almannahag að rannsókn fari fram á sjálfri rannsókninni. Að mínum dómi er það slæmt fyrir réttarkerfið - og varðar þannig almannahag - að sú skoðun sé útbreidd í þjóðfélaginu að réttarkerfið hafi brugðist.“

blmfundur_07.10.11

Frá blaðamannafundinum í innanríkisráðuneytinu: F.v. Valgerður María Sigurðardóttir lögfræðingur, sem starfar með hópnum, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Arndís Soffía Sigurðardóttir, lögfræðingur og lögreglumaður sem er formaður hópsins,  dr. Jón Friðrik Sigurðsson prófessor  og yfirsálfræðingur á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss og Haraldur Steinþórsson lögfræðingur.

Starfshópnum er falið að fara yfir málið í heild sinni en sérstaklega þá þætti sem snúa að rannsókn þess og framkvæmd rannsóknarinnar. Þau gögn sem komið hafa fram á síðustu misserum og árum verði tekin til athugunar. Í áfangaskýrslu komi fram hvort og þá til hvaða ráðstafana þurfi að grípa varðandi framhald málsins. Starfshópurinn mun geta kallað sérfræðinga til ráðgjafar eftir því sem hann telur þörf á.

Ögmundur sagði að á þessu stigi sé gert ráð fyrir að athugun starfshópsins snúi að því hvernig staðið var að rannsókn málsins á sínum tíma. „Þegar niðurstöður þar að lútandi liggja fyrir er unnt að meta forsendur fyrir frekara framhaldi.“

Starfshópinn skipa: Arndís Soffía Sigurðardóttir, lögfræðingur og lögreglumaður, sem er formaður hópsins. Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur og dr. Jón Friðrik Sigurðsson, yfirsálfræðingur á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss. Þá starfar með hópnum Valgerður María Sigurðardóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneyti.

Frekari upplýsingar um fulltrúa í starfshópnum:

  • Arndís Soffía Sigurðardóttir er lögfræðingur, með próf frá Lögregluskóla ríkisins og hefur starfað sem lögreglumaður og varðstjóri. Hún starfar nú sem fulltrúi hjá sýslumannsembættinu á Selfossi. 
  • Haraldur Steinþórsson er lögfræðingur á lögfræðisviði fjármálaráðuneytisins.
  • Dr. Jón Friðrik Sigurðsson prófessor starfaði um árabil sem sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun ríkisins, hefur stundað kennslu- og rannsóknarstörf og hefur frá árinu 2001 verið yfirsálfræðingur á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss. 


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta