Umhverfisráðuneytið viðhafði vandaða stjórnsýslu
Umboðsmaður Alþingis telur ekki að umhverfisráðuneytið hafi orðið uppvíst að óvandaðri stjórnsýslu við staðfestingu stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs fyrr á árinu. Þetta kemur fram í áliti sem hann hefur sent frá sér.
Ferðaklúbburinn 4 x 4 og Skotveiðifélag Íslands sendu í vor erindi til umboðsmanns Alþingis þar þau kvörtuðu undan málsmeðferð ráðuneytisins, svæðisráðs og stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins. Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir staðfesti áætlunina hinn 28. febrúar síðastliðinn. Töldu félögin tvö að svæðisráð og stjórn þjóðgarðsins sem og umhverfisráðuneytið hafi hvorki sinnt athugasemdum þeirra né haft við þau nægilegt samráð við gerð áætlunarinnar. M.a. hafi athugasemdum þeirra eingöngu verið svarað með almennum hætti.
Kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að í lögum sé ekki lögð sú skylda á herðar stjórnvalda að taka afstöðu til allra athugasemda sem þeim berast í slíkum málum, né sé ákvæði um slík í Árósasamningnum, sem umboðsmaður hafði til hliðsjónar í málinu. Hins vegar skipti máli að aðilar máls finni að brugðist hafi verið við innsendum athugasemdum. Það hafi ráðuneytið gert í greinargerð þar sem farið var ítarlega yfir athugasemdir hagsmunaaðila vegna þeirra þátta sem mest umdeildir voru, þ.e. veiða og samgangna innan þjóðgarðsins. Í henni hafi aukinheldur verið tekið fram að rétt væri að skoða nánar atriði tengd athugasemdum vegna veiða auk þess sem þeim tilmælum var beint til stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs að skoða samgönguþátt áætlunarinnar sérstaklega í samstarfi við helstu hagsmunaaðila. Fyrsta skrefið í því samráði hafi þegar verið stigið.
Umboðsmaður rekur ennfremur þau rök ráðuneytisins að í lögum sé tekið fram að umhverfisráðherra geti gert athugasemdir við verndar- og stjórnunaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs ef hann telji hana brjóta í bága við lög, reglugerð um þjóðgarðinn og/eða verndarmarkmið hans. Það hafi verið mat ráðherra að svo væri ekki og telur umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla nánar um þetta atriði kvörtunarinnar.
Loks fjallar umboðsmaður um þann þátt kvörtunarinnar er lýtur að því að ofangreind félög hafi ekki fengið fund með ráðherra vegna áætlunarinnar. Hins vegar hafi ferðaklúbburinn 4 x 4 fengið fund með starfsmönnum ráðuneytisins. Bendir umboðsmaður á að skv. stjórnsýslulögum hafi aðilar ekki rétt til að velja sér hvaða starfsmenn stjórnvalds, þ.á.m. ráðherra, þeir eigi samskipti við í tengslum við tiltekið mál. Þá þurfi að tryggja að leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga sé fullnægt, sem hafi verið gert í þessu tilfelli. Því sé ekki ástæða til að gera athugasemdir við þessa málsmeðferð ráðuneytisins.