Ráðherra gagnrýnir dóm yfir Tímósjenkó
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lýsir yfir miklum vonbrigðum með dóm yfir Júlíu Tímósjenkó, fyrrum forsætisráðherra Úkraínu, en hún var dæmd til sjö ára fangavistar í gær fyrir misbeitingu valds. Ráðherra tekur undir yfirlýsingu Evrópusambandsins þar sem framkvæmd réttarhaldanna yfir Tímósjenkó er gagnrýnd harðlega og mun styðja samhljóða ályktun sem lögð verður fyrir hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu,ÖSE, í vikunni.
Réttarhöldin hafa ekki staðist alþjóðlegar kröfur um málsmeðferð, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir um úrbætur. Mikilvægt er að lögð verði áhersla á eðlilega málsmeðferð við hugsanlega áfrýjun dómsins. Dómurinn og málsmeðferðin valda sérstökum vonbrigðum þar sem Úkraína gegnir nú formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins og mun taka við formennsku ÖSE 2013.