Hoppa yfir valmynd
13. október 2011 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra tekur þátt í umfangsmestu kynningu íslenskrar menningar

OS-i-Frankfurt-Snorrabok
OS-i-Frankfurt-Snorrabok

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra er nú staddur á Bókasýningunni í Frankfurt, þar sem Ísland er heiðursgestur undir yfirskriftinni "Sögueyjan Ísland". Ráðherra hefur tekið þátt í kynningum í íslenska skálanum á sýningunni, rætt við fjölda þýskra forleggjara sem gefa út íslenskar bækur og verið viðstaddur upplestra.

Þátttaka Íslands í bókasýningunni í Frankfurt er umfangsmesta kynningar- og útflutningsverkefni sem Ísland hefur ráðist í á sviði menningar en það hefur verið í undirbúningi í fjögur ár. Yfir hundrað þýsk forlög gefa af þessu tilefni út yfir 230 titla eftir íslenska höfunda eða um Ísland en Þýskaland er einn mikilvægasti markaður heims fyrir þýddar bókmenntir.

Utanríkisráðherra flutti ávarp þegar kynnt var þýsk útgáfa bókarinnar "Árásin á Goðafoss" eftir Óttar Sveinsson og Stefan Krücken sem kom út hjá þýska forlaginu Ankerherz í gær. Bókin segir frá því þegar þýskur kafbátur sökkti Goðafossi 10. nóvember 1944. Meirihluti áhafnar og farþega létu lífið í árásinni en bókin byggir á viðtölum við eftirlifandi áhafnarmeðlimi þýska kafbátsins og Goðafoss. Við úgáfu bókarinnar var stefnt saman Horst Koske, sem var í áhöfn þýska kafbátsins og Sigurði Guðmundssyni af Goðafossi. Það var áhrifamikil stund þegar mennirnir tveir hittust svo löngu eftir atburðina en í ávarpi sínu ræddi utanríkisráðherra mikilvægi skilnings og fyrirgefningar.

Sama dag talaði utanríkisráðherra á blaðamannafundi þegar kynntur var samningur stærsta bóksölufyrirtækis heims, Amazon og útgáfufyrirtækis þess, Amazon Crossing, um útgáfu verka eftir tíu íslenska höfunda í Bandaríkjunum á næsta ári. Fá íslensk verk hafa verið gefin út í Bandaríkjunum og er vonast til að verkefnið verði lyftistöng í þeim efnum. Ráðherra fagnaði samkomulaginu, sagði að í því fælist traust og frábært tækifæri fyrir íslenskar bókmenntir til að komast inn á bandarískan bókamarkað og víðar, því bækurnar koma einnig út sem rafbækur.

Í dag var utanríkisráðherra viðstaddur kynningar á verkum Óskars Guðmundssonar, Auðar Övu Ólafsdóttur, Jóns Kalman Stefánssonar, Steinunnar Sigurðardóttur, Kristínar Marju Baldursdóttur og Hallgríms Helgasonar.

Mikið hefur verið fjallað um Ísland og íslenskar bókmenntir í þýskum fjölmiðlum undanfarna daga í tengslum við bókasýninguna. Íslenski skálinn hefur einnig vakið mikla athygli en þema skálans er lesandinn og ánægjan af lestri. Yfir fjörutíu íslenskir höfundar eru í Frankfurt og eru upplestrar og umræður sem efnt er til íslenska skálnum fjölsóttar. Í skálanum eru einnig sýnd tengslin milli náttúru og bókmennta og var Expó skálinn sem byggður var fyrir þátttöku Íslands á heimssýningunni í Shanghæ fluttur til Frankfurt og endurnýttur af þessu tilefni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta