Hoppa yfir valmynd
14. október 2011 Innviðaráðuneytið

Framlög Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga um 19,5 milljarðar á síðasta ári

Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sveitarfélaga landsins námu á síðasta ári um 19,5 milljörðum króna. Jöfnunarsjóði hafa verið falin ný verkefni á þessu ári, meðal annars umsjón framlaga vegna málefna fatlaðra sem flutt voru frá ríki til sveitarfélaga.

ÁrsfundurJöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn 12. október.
ÁrsfundurJöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn 12. október.

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í vikunni og í upphafi hans flutti Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, ávarpsorð og kveðju frá Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. Sagði hún skýrslu og reikninga sjóðsins sýna glöggt hversu þýðingarmikill sjóðurinn væri og að honum hefði í gegnum árin sífellt verið fært þýðingarmeira hlutverk í stuðningi sínum við rekstur sveitarfélaga landsins.

Frá ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.Elín Pálsdóttir, forstöðumaður Jöfnunarsjóðs, greindi frá helstu þáttum í starfsemi sjóðsins og fór yfir ársreikninga 2010. Kom fram að tekjur sjóðsins voru alls um 21 milljarður króna á árinu 2010 og framlögin til sveitarfélaga námu rúmlega 19,5 milljörðum króna. Sérstök framlög 5,7 milljarðar, jöfnunarframlög 7,6 milljarðar og framlög vegna reksturs grunnskóla námu 6,2 milljörðum króna.

 

Framlög ársins verða um 26 milljarðar króna

Á þessu ári voru málefni fatlaðra flutt frá ríki til sveitarfélaga og Jöfnunarsjóði jafnframt falin umsjón og úthlutun framlaga til málaflokksins. Áætlað er að heildarframlög til sveitarfélaganna verði um 26 milljarðar króna á árinu 2011.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs er nú þannig skipuð: Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi bæjarstjóri í Fjarðabyggð er formaður, aðrir fulltrúar eru Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarmaður í Sveitarfélaginu Skagafirði, Björk Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, Hermann Jón Tómasson, bæjarfulltrúi í Akureyrarkaupstað, og Þórunn Egilsdóttir, sveitarstjórnarmaður í Vopnafjarðarhreppi.

Frá ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.Hér eru bæjarstjórarnir Eiríkur Björn Björgvinsson á Akureyri og Kristján Jónasson í Snæfellsbæ með Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra.






Á ársfundinum skýrði Sigurður Helgason ráðgjafi frá flutningi á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga og hvert hlutverk Jöfnunarsjóðs væri í þeim breytingum. Tvær nýjar reglugerðir hafa verið settar, önnur um framlög Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk og hin um Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs.

Þá flutti Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneyti, yfirlit um framkvæmd tillagna starfshóps um heildarendurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs. Greindi hann meðal annars frá mælingum á helstu útgjaldaþáttum sveitarfélaganna. Hermann sagði að starfshópur ynni nú að útfærslu á tillögum um breytingarnar og þróun á nákvæmu útgjaldamælingarkerfi. Hann sagði verkinu ekki lokið en næstu skref væru fólgin í því að færa fé í jöfnunarkerfinu frá tekjuháum sveitarfélögum til hinna tekjulægri og sýndi hann dæmi um áhrif þessara breytinga.

Í lok fundar fjallaði Guðmundur Bjarnason, formaður ráðgjafanefndarinnar, um ráðstöfun aukaframlags Jöfnunarsjóðs á yfirstandandi ári.

Forsíða ársskýrslu 2010






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta