Hoppa yfir valmynd
14. október 2011 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra fylgjandi stofnun millidómstigs

Framtíðarskipan dómstóla var til umfjöllunar á málþingi sem dómstólaráð stóð fyrir í dag í Reykjavík. Í upphafi þingsins flutti Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarp og síðan ræddi Gunnar Helgi Kristinsson prófessor um stjórnsýslu dómstólanna. Síðan voru pallborðsumræður og vinnuhópar störfuðu.

Dómstólaráð stóð fyrir málþingi um framtíð dómstóla.
Dómstólaráð stóð fyrir málþingi um framtíð dómstóla.

Innanríkisráðherra gat í upphafi máls síns um þá hornsteina lýðveldisins sem dómstólar væru og minnti á að bæði löggjafarvald og hann sem hluti framkvæmdavalds hefðu hlutverki að gegna varðandi lagaramma og starfsumhverfi dómstóla. Þá sagði hann dómstólaráð gegna lykilhlutverki varðandi héraðsdóma sem áður hefði verið verkefni ráðuneytis dómsmála. Kvaðst hann velta því fyrir sér hvort yfirvöld hefðu velt nógu mikið fyrir sér þróun í hlutverki ráðsins.

Innanríkisráðherra ávarpaði málþing dómstólaráðs í dag.

Ráðherra sagði að undanfarið hefði farið fram á vegum ráðuneytisins nokkur umfjöllun um skipan dómskerfisins, meðal annars komið fram skýrsla árið 2008 þar sem lagt væri til að komið verði á millidómstigi í sakamálum þar sem fram fari sönnunarfærsla á nýjan leik og starfshópur sem hann hefði skipað hefði snemmsumars skilað því áliti að full rök væru fyrir stofnun millidómstigs. Hann kvaðst hafa lýst sig fylgjandi því að stofna millidómstig, það verði þó að gaumgæfa og myndi ráðast af fjárhagsstöðu því ljóst væri að því fylgdi aukinn kostnaður. Ráðherra sagði ráðuneytið vilja eiga frumkvæði að því að taka til skoðunar allt dómskerfið og móta stefnu til framtíðar í samstarfi við dómskerfið og kvaðst hann vilja íhuga hvort útvíkka ætti hlutverk dómstólaráðs. Í lokin þakkaði hann Elínu S. Jónsdóttur fráfarandi framkvæmdastjóra dómstólaráðs fyrir vel unnin störf.

Að loknum inngangi ráðherra flutti Gunnar Helgi Kristinsson prófessor erindi um stjórnsýslu dómsdólanna. Síðan hófust pallborðsumræður og tóku þátt í þeim Halldór Halldórsson, dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands vestra, Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari og formaður DÍ, Hrannar Már Sigurðsson Hafberg, formaður félags aðstoðarmanna, Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, og Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við HR.

Síðdegis fór síðan fram þemavinna í hópastarfi og átti málþinginu að ljúka um klukkan 16. Málstofustjóri var Elín Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólaráðs.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta