Stefna mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum
Ágæti viðtakandi
Í byrjun árs 2005 skipaði þáverandi ráðherra starfshóp til þess að fara yfir íþróttamál á Íslandi með það að markmiði að móta íþróttastefnu. Í nefndinni sátu fulltrúar ríkis, sveitarfélaga og íþróttahreyfingarinnar og skilaði sú nefnd áfangaskýrslunni „Íþróttavæðum Ísland“ í ársbyrjun 2006. Nefndin ræddi í vinnu sinni við fjölda fag- og fræðimanna, starfsfólk íþróttahreyfingarinnar, fulltrúa sveitarfélaga og ýmissa samtaka. Haustið 2008 fól ráðherra svo íþróttanefnd ríkisins að ljúka við gerð íþróttastefnu. Þessi stefnumótun sem hér er sett fram byggist á endurmati stefnumótunar sem unnin var árið 1997 af starfshópi menntamálaráðuneytis, áfangaskýrslunni „Íþróttavæðum Ísland“ frá 2006 og öðrum áherslum mennta- og menningarmálaráðherra. Stefna þessi gildir til 2015 og verður hún þá endurmetin.
Stefnumótun í íþróttamálum tekur mið af þeim lagaskyldum sem ríkið hefur samkvæmt íþróttalögum, alþjóðalögum og samningum sem tengjast opinberum aðilum og frjálsum félagasamtökum sem fara með íþróttamál í landinu auk þess birtist stefnan í framlögum á fjárlögum til íþróttamála og áherslum mennta- og menningarmálaráðherra hverju sinni. Til þess að vinna að framgangi stefnunnar er mikilvægt að aðilar sem bera ábyrgð á málaflokknum sem eru ríkið, sveitarfélögin og íþróttahreyfingin hafi með sér samráð og samstarf. Byggt er á því grundvallarsjónarmiði að almennt íþróttastarf á Íslandi skuli skipulagt af frjálsum félagasamtökum. Þar er vísað til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, sérsambanda, íþróttahéraða, íþróttafélaga og deilda um land allt. Stór hluti landsmanna tekur þátt í þessu starfi á einn eða annan hátt. Stefnan tekur jafnframt á öllum helstu þáttum íþrótta í félagastarfi og hvernig opinberir aðilar og atvinnulíf geti stutt við það starf. Þá er lögð sérstök áhersla á að auka hreyfingu barna og unglinga á öllum skólastigum. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á nauðsyn þess að bæta lífsstíl fólks og gegnir skólakerfið leiðandi hlutverki í að hafa áhrif á hreyfingu og þekkingu á gildi íþrótta. Við mótun stefnunnar var horft til framtíðar og tekið mið af því sem áunnist hefur á undanförnum árum. Sett eru fram skýr markmið og bent á leiðir til að framfylgja þeim.
Svandís Svavarsdóttir
mennta- og menningarmálaráðherra