Matvæladagur MNÍ 2011
Kæru ráðstefnugestir,
Ég greip í tímarit um daginn sem fjallaði um ferðamál og þar stóð eitthvað á þá leið - að leiðin að hjarta ferðamannsins liggi í gegnum magann!
Nú er það þannig að þessa tilvitnun má skoða með tvennum gleraugum.
Önnur sýna okkur andstæðuna við heilsutengd matvæli og markfæði sem er umræðuefni
þessarar ráðstefnu, nefnilega það að ruslfæði – en þið sem hér eruð vitið jú allt um það!
Hin gleraugun bregða birtu á það hve matur er stór hluti af því hvernig við upplifum stað og stund – og það var vitanlega hugsunin í tilvitnuninni. Sjálf hef ég það fyrir reglu að þegar ég ferðast utan stór-Kópavogs svæðisins að þá reyni ég alltaf að sæta lagi og fá að bragða á einhverju því sem er einkennandi fyrir þann stað og þá menningu sem þar ríkir. Og það get ég sagt ykkur að margar af mínum bestu ferðaminningum tengjast mat á einn eða annan hátt.
Fyrr í mánuðinum var Ferðamálaþing haldið á Ísafirði – og meginþema þingsins gekk út
á upplifunarferðamennsku. Að ferðamaðurinn upplifi eitthvað sérstakt sem dýpki reynsluna og sé frásagnarinnar virði þegar heim er komið. Sögurnar kveikja síðan í vinum og kunningjum að fylgja í fótspor sögumanns. Hér getum við nefnt ótal atriði sem Ísland hefur að bjóða ... en þau eiga það flest sammerkt að íslenskur matur kemur við sögu í þeim flestum. Og sannarlega er þar af mörgu að taka.
Á ferðamálaþinginu var mikil áhersla lögð á að tengja saman ferðaþjónustuna og hinar skapandi greinar – og þá ekki síst hönnuði. Ég er þess meira en fullviss um að það eru
möguleikar og tækifæri undir hverjum steini í þessu samspili ferðaþjónustunnar og hönnunar.
Ástæðan fyrir því að ég minnist á þetta hér og nú í upphafi þessarar ráðstefnu um heilsutengd matvæli og markfæði – er að það eru svo margir sameiginlegir þræðir á milli ráðstefnunnar hér í dag og ferðamálaþingsins á Ísafirði. Þessir þræðir snúast ekki hvað síst um vöruþróun og markaðssetningu. Að skilja og skynja þarfir markhópsins og koma fram með vöru sem rímar við þarfir hans, þrár og væntingar.
Og ég er líka að hvetja ykkur - sem alla daga eruð að framleiða heilsutengd matvæli, og það oftar en ekki úr íslensku hráefni - til að taka höndum saman við ferðaþjónustuna og hinar skapandi greinar. Mín reynsla er að út úr þess konar samstarfi koma oft framúrskarandi hlutir og hugmyndir sem fá vængi! Heimamarkaðurinn er vitanlega alltaf kjölfestan – en hafið í huga að í ár er reiknað með að hingað til lands komi um 600.000 erlendir ferðamenn sem flestir hverjir eru opnir fyrir, og leitandi að, einhverri þeirri upplifun sem sannarlega bragð er af. Frábærir hlutir eru að koma út úr samstarfi hönnuða og matvælaframleiðenda og er hluti af upplifun ferðamanna.
Ég fagna þeirri miklu grósku sem á sér stað í íslenskri matvælaframleiðslu – og þá
sérstaklega þegar hún er undir merkjum hollustu og góðra lífshátta. Þegar ég lít yfir dagskrá dagsins þá sé ég fjölmörg erindi um vörur sem hafa náð afburða góðum árangri. Þetta eru bæði nýja vörur sem ætlað er að svara „nýjum“ kröfum tengdum heilsurækt eins og t.d.
próteindrykkirnir Hleðsla, Hámark, Byggi og Prófitt. En þarna er líka gamla góða lýsið – sem er „aldagömul lífsnauðsyn“ eins og segir í yfirskrift. Vöruþróun og nýsköpun verður nefnilega að vera síkvik og lifandi í öllum fyrirtækjum – gömlum og nýjum. Þau hjá Lýsi vita það öllum betur að það má aldrei sofna á verðinum.
Það er langur vegur frá hugmynd að fullbúinni vöru í neytendapakkningum. Fyrirtæki
í matvælaframleiðslu eru af öllum stærðum og margvíslegum gerðum og þeirra á
meðal eru mörg sem eru lítil – en lofandi! Ég vil nota þetta tækifæri til að benda á þann stuðning sem fyrirtæki geta sótt til stofnana sem heyra undir iðnaðarráðuneytið; Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Byggðastofnun og Ferðamálastofu. Þessar stofnanir hafa það að meginhlutverki að skapa kjöraðstæður fyrir gróskumikið atvinnulíf. Til þeirra getið þið sótt margháttaða sérfræðiráðgjöf – t.d. um stofnun og rekstur fyrirtækja – og sérhæfðar tæknirannsóknir. Jafnframt eru í boði fjölbreyttir styrkir og ýmis konar handleiðsla fyrir frumkvöðla og þroskuð fyrirtæki. Það má á einfaldan máta fá greinargott yfirlit yfir þjónustuframboð þessara stofnananna á vefsvæðinu atvinnuvegurinn.is og ég hvet ykkur til að kynna ykkur þá möguleika sem í boði eru.
Matur er mannsins megin – það veit ég flestum betur þessar vikurnar þar sem ég þarf
jú að borða fyrir þrjá. Ég rétt eins og allir aðrir hef tekið eftir – og dáðst að - því kröftuga starfi sem íslenskir matvælaframleiðendur í hollustuvörum hafa unnið á undanförnum misserum og árum. Mörg fyrirtæki hafa náð afburða góðum árangri ... og það drjúpa tækifæri af hverju strái.