Heimsókn stækkunarstjóra Evrópusambandsins, Stefan Füle
Forsætisráðherra tók í dag á móti Stefan Füle, yfirmanni stækkunarmála Evrópusambandsins, í Stjórnarráðinu.
Á fundinum var rætt um framvindu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið, en í dag fór fram í Brussel ríkjaráðstefna Íslands og ESB. Þar voru tveir samningskaflar, um hugverkarétt og frjálsa för fólks, opnaðir og þeim lokað. Fjórir kaflar til viðbótar voru opnaðir á ríkjaráðstefnu í júní og tveimur þeirra lokað þá þegar.
Forsætisráðherra lýsti ánægju með ferlið og kvað mikilvægt að hreinskiptin og traust samskipti væru í samningaviðræðunum, bæði við framkvæmdastjórn og aðildarríkin, enda væri opnun stærri og erfiðari kafla í samningaferlinu framundan.
Forsætisráðherra og stækkunarstjórinn gáfu út eftirfarandi sameiginlega yfirlýsingu:
Við erum ánægð með að viðræðuferli Íslands vegna umsóknar um aðild að Evrópusambandinu hefur gengið með ágætum. Stækkunarskrifstofa framkvæmdastjórnarinnar er mikilvægur og traustur samstarfsaðili, bæði aðildarríkjanna og Íslands í því að skipuleggja ferlið og viðræðurnar. Við höfum rætt um frekari skref í ferlinu og sjáum fram á góða samvinnu við opnun stærri kafla sem færa nýjar áskoranir, og finna gagnlegar lausnir sem henta báðum aðilum.