Hoppa yfir valmynd
19. október 2011 Utanríkisráðuneytið

Viðræðum lokið um tvo samningskafla í samningaviðræðum Íslands og ESB

SHJ-og-polskur-fulltrui
SHJ-og-polskur-fulltrui

Í dag fór fram í Brussel ríkjaráðstefna milli Íslands og Evrópusambandsins þar sem fjallað var um tvo af samningsköflunum í yfirstandandi aðildarviðræðum, um frjálsa för vinnuafls og um hugverkarétt. Báðir þessir kaflar eru hluti af EES-samningum og var niðurstaða samninganefnda að löggjöf í þessum málaflokkum væri samsvarandi á Íslandi og í ríkjum Evrópusambandsins. Því var ákveðið að ljúka viðræðum í köflunum tveimur þar sem efni þeirra hefur þegar verið tekið upp í íslensk lög.

Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, fór fyrir íslensku sendinefndinni en Jan Tombinski, fastafulltrúi Póllands, formennskuríkis Evrópusambandsins, stýrði fyrir hönd ESB. Í ávarpi sínu lagði Stefán Haukur áherslu á Ísland ynni að því að vera tilbúið að opna allt að helming allra samningskafla fyrir jól og afganginn í formennsku Danmerkur í ESB fyrir mitt næsta ár 2012. Hann fagnaði nýlegri framvinduskýrslu ESB um Ísland og sagði hana staðfesta þann góða gang sem verið hefur í viðræðunum.

Varðandi þá samningskafla voru til umfjöllunar sagði Stefán Haukur að Evrópulöggjöf sem tryggir frjálsa för vinnuafls hefði verið í gildi á Íslandi allt frá því að EES-samningurinn var gerður árið 1994. Á þeim tíma hefðu þúsundir Íslendinga nýtt sér þann rétt að starfa í aðildarríkjum ESB og njóta sömu félagslegu réttinda og heilbrigðisþjónustu og ríkisborgarar Evrópusambandsríkjanna. Um hugverkarétt, sagði Stefán Haukur að íslensk löggjöf væri nú þegar að langmestu leyti í samræmi við Evrópulög sem þannig tryggði íslenskum hugvitsmönnum og fyrirtækjum sömu réttindi og vernd.

Nánari upplýsingar um þá samningskafla sem lokið var að ræða um í dag eru hér:

Frjáls för vinnuafls (2. kafli)

Hugverkaréttur (7. kafli)

Samningaviðræðurnar sem nú standa yfir snúast um einstaka samningskafla löggjafar ESB sem eru 35 talsins. Alls hafa 6 samningskaflar þegar verið opnaðir og 4 þegar verið lokað. Samninganefnd Íslands og samningahópar sem í sitja fulltrúar stjórnsýslu, helstu hagsmunahópa og félagasamtaka móta samningsafstöðu Íslands í einstökum málum í samræmi við samningsmarkmið Alþingis. Næsta ríkjaráðstefna er ráðgerð í Brussel hinn 12. desember nk. og mun Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sækja hana fyrir Íslands hönd.

Ávarp aðalsamningamanns á ríkjaráðstefnunni í dag

Samningsafstaða Íslands í kaflanum um frjálsa för vinnuafls

Samningsafstaða Íslands í kaflanum um hugverkarétt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta