Hoppa yfir valmynd
20. október 2011 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra og samninganefnd Íslands funda með stækkunarstjóra ESB

p-019732-00-16h
p-019732-00-16h

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í gærkvöldi fund með Stefan Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, sem er staddur hér á landi. Á fundinum ræddu þeir stöðu og framgang aðildarviðræðna Íslands og ESB en á ríkjaráðstefnu í Brussel í gær luku samningsaðilar viðræðum um tvo samningskafla. Þannig hafa alls sex samningskaflar verið opnaðir frá því í lok júní og þar af er viðræðum um fjóra þegar lokið en aðildarviðræðurnarnar snúast alls um 35 samningskafla. Þá hitti Stefan Füle samninganefnd Íslands í morgun í utanríkisráðuneytinu, þar sem farið var yfir stöðuna í viðræðunum og fyrirkomulag þeirra næstu mánuði.

Á fundinum með Füle lagði utanríkisráðherra áherslu á að Ísland væri reiðubúið að opna allt að helming allra kafla fyrir áramót og lýsti þeirri skoðun sinni að opna ætti þá samningskafla sem ljóst er að verði tímafrekir, svo sem um sjávarútveg og landbúnað, sem fyrst í ferlinu. Þar lægju grundvallarhagsmunir Íslands, sem og í kaflanum um efnahags- og peningamálasamstarf. Utanríkisráðherra sagði mikilvægt að vinna náið með Dönum, sem taka við formennsku ESB um áramót og opna aðra samningskafla á fyrri hluta næsta árs. Stefan Füle sagði nýútkomna framvinduskýrslu ESB um Ísland staðfesta að Ísland væri vel í stakk búið fyrir aðild vegna þess hve löggjöf er sambærileg vegna þátttöku Íslands í EES- og Schengen-samstarfinu. Füle hrósaði samvinnu embættismanna á Íslandi og í Brussel sem hann sagði vera til fyrirmyndar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta