Takmarkanir settar á innflutning og notkun leysa og leysibenda
Framvegis er óheimilt að nota öfluga leysibenda án leyfis frá Geislavörnum ríkisins og einnig ber að tilkynna Geislavörnum um innflutning þeirra. Velferðarráðherra hefur sett reglugerð um þetta til að hindra slys líkt og dæmi eru um að hlotist hafi af gáleysislegri notkun leysibenda.
Undanfarin ár hafa komið á markað ódýrir og öflugir leysibendar sem hafa verið til sölu á almennum markaði hér á landi. Bendarnir hafa verið vinsælir sem leikföng þótt þeir séu alls ekki til þess fallnir þar sem þeir geta reynst hættulegir. Dæmi eru um að fólk hafi orðið fyrir varanlegum augnskaða eftir geisla frá leysibendi. Eins geta hlotist alvarleg slys ef leysibendum er beint að stjórnendum farartækja. Nefna má atvik þar sem illa hefði getað farið þegar tveir drengir beindu geislum úr leysibendum að flugvél í aðflugi á Akureyri og trufluðu þannig flugmennina.
Mörg Evrópulönd hafa nú þegar innleitt löggjöf um leysa og í fyrra sendu geislavarnastofnanir á Norðurlöndunum erindi til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins með tillögu um að takmarka innflutning öflugra leysibenda og leggja bann við almennri notkun þeirra.
Í reglugerð velferðarráðherra er kveðið á um að notkun öflugra leysa og leysibenda sé óheimil án leyfis Geislavarna ríkisins. Þeir sem hyggjast flytja inn öfluga leysibenda þurfa að tilkynna um það til stofnunarinnar og einungis má selja eða afhenda öfluga leysa og leysibenda þeim sem hafa leyfi Geislavarna ríkisins fyrir notkun þeirra.
Lengi hefur tíðkast að nota öfluga leysa sem ljósabúnað á skemmtistöðum og víðar þar sem almenningur kemur saman. Notkun slíks búnaðar er og hefur verið háð leyfi og eftirliti Geislavarna ríkisins samkvæmt reglugerð frá árinu 1988. Sú reglugerð hefur nú verið felld brott en skilyrði fyrir notkun búnaðarins felld inn í nýju reglugerðina um innflutning og notkun leysa og leysibenda.
Samkvæmt reglugerðinni eru öflugir leysar skilgreindir sem leysar í flokki 3R, 3B eða 4 samkvæmt flokkun í staðli ÍST-EN 60825-1. Öflugur leysibendir er skilgreindur með afl sem svarar til flokka 3R, 3B og 4 samkvæmt staðli ÍST-EN-60825-1. Reglugerðin tekur ekki til leysa sem ætlaðir eru til læknisfræðilegrar meðferðar.