Hoppa yfir valmynd
24. október 2011 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra ræddi við breska samráðherra og þingmenn

Í síðustu viku átti Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fund með ráðherra bresku stjórnarinnar sem fer með landamæravörslu og innflytjendamál, Damien Green. Ráðherrarnir ræddu um landamæravörslu og skipulagða glæpastarfsemi.

Innanríkisráðherra skýrði frá því hvernig íslensk stjórnvöld vildu aðgreina eftirlit með skipulagðri glæpastarfsemi annars vegar og andófi sem ætti sér pólitískar og þar með lýðræðislegar rætur hins vegar. Í því samhengi væri mikilvægt að forðast að lögregla hefði afskipti af hópum sem berðust í margvíslegu grasótarstarfi og væri slæmt til þess að vita að lögregluyfirvöld í Evrópu hefðu grafið um sig í slíku starfi eins og upplýst hefði verið í fjölmiðlum. Þá var rætt um landamæravörslu og stöðu innflytjendamála. Fram kom að Bretar hafa engin áform uppi um aðkomu að Schengen samstarfinu.

Innanríkisráðherra átti einnig fundi með þeim þingmönnum í breska þinginu sem sérstaklega hafa lagt sig eftir góðu samstarfi við Ísland og má þar nefna þau Fabian Hamilton, Austin Mitchell, Megg Munn, Angus MacNeil og Andrew Rosindell sem, að Andrew undanskildum, komu hingað til lands síðastliðið sumar til viðræðna við íslenska ráðherra og þingmenn.

Þá ræddi Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra við aðra þingmenn sem gegna lykilstöðum og hafa með höndum stefnumótun.

„Þetta voru afar gagnlegar og fróðlegar viðræður. Ég mætti engu öðru en mikilli vinsemd gagnvart Íslandi og Íslendingum. Mér virðist Bretum vera umhugað að skapa gott andrúmsloft á milli þjóðanna og var ég með heimsókn minni að þiggja boð sem staðið hefur frá því bresku þingmennirnir komu hingað í  sumar til viðræðna við okkur. Ég á von á áþekkri heimsókn frá breskum þingmönnum að nýju á komandi ári. Þess má einnig geta að í þessari heimsókn notaði ég tækifærið og ræddi við fulltrúa úr atvinnulífinu sem sérhæfa sig í verkefnum á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.“

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta