Áhersla á ábyrgð gagnvart þróunarríkjum
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ávarpaði málþing 21. október sl. í tilefni 40 ára afmælis íslenskrar þróunarsamvinnu, 30 ára afmælis Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) og 10 ára afmælis Íslensku friðargæslunnar. Málþingið var haldið í samvinnu við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands og Alþjóðamálastofnun og var liður í aldarafmæli Háskóla Íslands. Heiðursfyrirlesari var prófessor Paul Collier frá Oxford-háskóla. Aðrir fyrirlesarar á málþinginu voru Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði, Valgerður Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri frá Háskólanum og Hermann Örn Ingólfsson sviðsstjóri þróunarsamvinnusviðs utanríkisráðuneytisins.
Í opnunarávarpi sínu minntist Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra þess að einungis væru 40 ár frá því Ísland hafi sjálft verið skilgreint sem þróunarríki en hafi með batnandi efnahag breyst úr þiggjanda í veitanda þróunaraðstoðar. Um leið og hann bauð Dr. Paul Collier velkomin benti hann á verksummerki kenninga hans í Þróunarsamvinnuáætlun Íslands. Þau má greina í þremur megináherslusviðum áætlunarinnar þar sem sérþekking Íslendinga nýtist sem best. Þau eru: i) sjálfbær nýtingu náttúrauðlinda, ii)stuðningi við bláfátæka í gegnum menntun og heilsuvernd og iii) stuðningi við frið og uppbyggingu í óstöðugum ríkjum. Auk þess lagði ráðherra ríka áherslu á mikilvægi kynjajafnréttis í þróunarsamvinnu Íslendinga.
Utanríkisráðherra sagði árangur sjást á ýmsum sviðum. Til dæmis hafi hundruð milljónir manna sloppið úr örbirgð, barnadauði hafi minnkað um þriðjung á sl. tuttugu árum, grunnskólamenntun standi nú nær öllum börnum til boða og að um milljarður manna hafi fengið aðgang að hreinu vatni. Tölurnar beri vott um raunverulegan árangur. Slæmu fréttirnar væru hins vegar þær að enn væru ótal vandamál óleyst og að athygli okkar mætti ekki hverfa frá þeim mergsogna milljarði sem Paul Collier vakti athygli á í frægustu bók sinni The Bottom Billion.
Utanríkisráðherra lagði áherslu á ábyrgð okkar gagnvart þróunarríkjum, og að þrátt fyrir bankahrun og aðra óáran, væri breið samstaða um þá ábyrgð á Alþingi þegar það einróma samþykkti fjögurra ára þróunaráætlun Íslands í júní sl.. Í þróunarsamvinnuáætluninni er staðföst skuldbinding um að auka framlög Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu upp í 0,7 % af þjóðarframleiðslu (markmið SÞ) árið 2019 og í nýju fjárlagafrumvarpi er gert er ráð fyrir auknum framlögum til 2012 í samræmi við áætlunina.
Ráðherra þakkaði starfsfólki ÞSSÍ fyrir að hafa borið hitann og þungan af tvíhliða samvinnu Íslands undangegnin 30 ár við samstarfslönd okkar í Afríku, Suð-Austur Asíu og Suður-Ameríku. Jafnframt minntist stofnunar íslensku friðargæslunnar þann 10. september 2001, daginn fyrir hinn örlagaríka 11. september, en henni er ætlað að sinna verkefnum til verndar friði og öryggi í heimnum.
Paul Collier bar lof á 0.7% markmið Íslands um þróunarframlög. Hann sagði það fordæmisgefandi í ljósi efnahagslegs andstreymis og að öflugri lönd sem ekki standa við skuldbindingar sínar um þróunarmarkmið, mættu taka það sér til fyrirmyndar. Rödd Íslands hefði auk þess trúverðugleika í Afríku. Bæði vegna þess hve stutt er síðan landið flokkaðist sem þróunarríki auk þess sem Íslendingar hefðu ekki verið nýlenduherrar sem oft þættu tala niður til fyrrum nýlenduþjóða. Collier lagði í erindi sínu áherslu á skyldur gjafaríkja til að fræða almenning bæði heimafyrir og í viðtökulöndum þróunarsamvinnu. Slík uppfræðsla eykur ábyrgð, gagnsæi og sjálfbærni þróunarsamvinnu og stuðlar að sanngjarnari viðskiptaháttum.
Um auðlindir, sem eru meginþema nýjustu bókar hans The Plundered Planet, sagði Collier að þær væru af tvennum toga; annars vegar sameiginlegar fyrir allt mannkyn (s.s. andrúmsloft og fiskistofnar utan lögsögu) og hinsvegar landfræðilega afmarkaðar. Hann taldi mikilvægt að kortleggja náttúruauðlindir þróunarríkja til að styrkja samningsstöðu þeirra þegar kæmi að hagnýtingu þeirra. Auk þess þyrfti að tryggja að arður auðlindanna rynni til almennings og yrði varið til uppbyggingar grunnvirkja og innviða viðkomandi ríkja.
Fundarstjóri á málþinginu var Engilbert Guðmundsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, en Valgerður Sverrisdóttir, formaður samstarfsráðs um þróunarsamvinnu stjórnaði umræðum sem voru mjög líflegar.