Aukinn jöfnuður og fjölgun starfa
Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir færði ASÍ þakkir fyrir gott samstarf við endurreisn samfélagsins eftir hrun, í ávarpi sínu á formannafundi ASÍ sem haldinn var í dag. Í ávarpinu kom forsætisráðherra víða við; fjallaði um árangurinn í efnahagslegri endurreisn landsins, stefnumörkun stjórnvalda og þau mikilvægu verkefni sem framundan eru, ekki síst í atvinnumálum og menntamálum ungs fólks. Forsætisráðherra fjallaði einnig um þann mikilvæga árangur sem náðst hefur við að standa vörð um kjör hinna verst settu í samfélaginu, bæði meðal launamanna og lífeyrisþega, og sagði meðal annars:
„Við höfum snúið taflinu við og jöfnuður hefur aukist í okkar samfélagi. Við höfum lagt á það áherslu að beita sköttum og bótum til þess að ná markmiðum um aukinn jöfnuð. Róttækar breytingar hafa verið gerðar á tekjusköttum einstaklinga sem miða að því að dreifa byrðunum á réttlátan hátt án þess að meðalskatthlutföll hafi hækkað. Skatthlutföll um 37 þúsund hjóna, eða 60%, sem er í neðri hluta tekjuskalans hafa lækkað frá árinu 2008. Við erum hér að tala um hjón með sameiginlegar tekjur á mánuði allt að 780 þúsund krónur. 85.000 einstaklingar greiða nú lægra hlutfall af tekjum sínum í skatt en þeir gerðu fyrir hrun, m.a. vegna hækkunar persónuafsláttar og lækkun skatthlutfalls á lægstu tekjur.
Þeir sem meira bera úr bítum greiða hinsvegar hærra hlutfall tekna sinna til samfélagsins. Mestu skiptir þar áhrif nýs fjölþrepaskattkerfis, hækkun fjármagnstekjuskatts og auðlegðarskattur. Ég nefni hér líka að við höfum staðið styrkan vörð um almannatryggingakerfið og vil geta þess að frá 2007 til 1. febrúar næstkomandi hefur framfærsluviðmið bóta hækkað um 61%. Nefni ég einnig þrátt fyrir niðurskurð hefur ekki verið hróflað við því fyrirkomulagi sem komið var á árið 2007 að tekjur maka skerði ekki bætur. Ég vil líka minna á bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga hækkuðu þann 1. júní sl. um 8,1%, með hliðsjón af krónutöluhækkun lægstu launa í kjarasamningum. Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að hækkun bóta á næsta ári verði 3,5% í samræmi við almenna prósentuhækkun í kjarasamningum á vinnumarkaði. Uppsöfnuð hækkun bóta verður þar með orðin nálægt 12% á hálfs árs tímabili. En til samanburðar er almenn hækkun launa á samningstímabilinu 11,4%.“