Drög að reglum um styrki til samgönguleiða til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglum um styrki til samgönguleiða. Þeir sem óska geta sent umsagnir sínar á netfangið [email protected] fram til 10. nóvember 2011.
Samkvæmt 25. gr. vegalaga nr. 80/2007 er heimilt að ákveða fjárveitingu til að styrkja tilteknar samgönguleiðir sem ekki falla undir skilgreiningar vega samkvæmt lögunum. Heimild svipaðs efnis var að finna í eldri vegalögum en þá var upptalning á þeim samgönguleiðum sem gætu notið styrkja að finna í lögunum.
Samkvæmt núgildandi lögum er kveðið á um að ráðherra setji nánari reglur þar um, sbr. 5. mgr. 25. gr. vegalaga. Nauðsynlegt er að nánari ákvæði séu sett til að skýrt sé hvaða tilvik séu styrkhæf. Í 5. mgr. 25. gr. er einnig kveðið á um að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd styrkveitinga. Eðlilegt er að kveðið sé á um auglýsingar eftir umsóknum um styrki, skilyrði fyrir veitingu styrkja, tíðni úthlutana og aðrar nánari reglur um umsóknir sem ekki er að finna í lögunum en nauðsynlegar eru til að tryggja vandaða afgreiðslu mála.
Loks þykir mikilvægt að kveða á um það skilyrði að samgönguleiðir sem njóta styrkja af almannafé séu til afnota fyrir almenning og að sett séu skilyrði varðandi merkingar en til þess er heimild í lögum. Af ofangreindum ástæðum eru reglur þessar lagðar til.