Hoppa yfir valmynd
27. október 2011 Dómsmálaráðuneytið

Rík ástæða til að fagna komu Þórs

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði ríka ástæðu til að fagna komu hins nýja varðskips Þórs til landsins. Skipið lagðist við Miðbakka í Reykjavík á þriðja tímanum í dag. Ráðherra sagði skipið smíðað og útbúið til að mæta auknum umsvifum á hafinu við Ísland enda ætluðu Íslendingar sér aukið hlutverk á norðurslóðum.

Þór siglir inní Reykjavíkurhöfn.
Þór siglir inní Reykjavíkurhöfn.

Þór kom til Reykjavíkur frá Vestmannaeyjum þar sem var fyrsta viðkoma skipsins eftir um mánaðar siglingu frá Chile. Asmar skipasmíðastöðin þar í landi átti lægsta tilboð í skipið þegar tilboð voru opnuð eftir forval og lokað útboð haustið 2006. Smíðin hófst haust eftir og hún tók fjögur ár, tafðist um ár vegna jarðskjálfta í Chile.

Margir fögnuðu Þór við Miðbakka í dag.

Forseti Íslands, ráðherrar, sendimenn erlendra ríkja, yfirmenn Landhelgisgæslu og lögreglu og ýmsir aðrir gestir tóku á móti skipinu sem sigldi inn í Reykjavíkurhöfn og fylgdu þyrlur gæslunnar skipinu síðasta áfangann, einnig björgunarbátar og TF-SIF sveimaði yfir. Lögregla og starfsmenn gæslunnar stóðu heiðursvörð meðan skipið lagðist uppað.

Margir fögnuðu Þór við Miðbakka í dag.

Meðal þeirra sem fögnuðu komu Þórs voru Þröstur Sigtryggsson, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni, og Guðmundur Hallvarðsson, fyrrverandi formaður Sjómannafélags Reykjavíkur.

Ögmundur Jónasson flutti síðan stutt ávarp og sagði ríka ástæðu til að fagna komu skipsins bæði vegna hinna auknu verkefna og þess að hvorki náttúruhamfarir né bankahrun hafi komið í veg fyrir smíðina.

Þurfa öflug og góð tæki

,,Ljóst var fyrir löngu að Landhelgisgæslan þurfti á nýju varðskipi að halda. Ekki Landhelgisgæslan sem slík heldur við, Íslendingar,” sagði ráðherra.  Hann sagði stefnuna hafa verið setta árið 2005 þegar ríkisstjórnin samþykkti tillögu Björns Bjarnasonar, þáverandi dómsmálaráðherra, um endurnýjun skipa- og flugvélakosts Landhelgisgæslunnar. ,,Verkefni Þórs verða ekki auðveld. Við erum umlukin sterkum hafstraumum og snöggum veðrabrigðum sem íslenskir sjómenn þekkja svo vel. Þeir vita að náttúran er í senn gjöful og hörð og þeir vita að þeir þurfa að kunna á sjóinn og kunna á veðrið. Þeir vita líka að þeir þurfa að hafa góð og öflug tæki.”

Innanríkisráðherra flutti ávarp við komu Þórs.

Ráðherra þakkaði bæði fulltrúum skipasmíðastöðvarinnar og Landhelgisgæslunnar fyrir vel unnin störf og sagði þá hafa átt náið og gott samstarf. ,,Áhafnir skipa Landhelgisgæslunnar og flugdeildarinnar einnig hafa margoft sýnt af sér snarræði og hugrekki í aðstæðum sem við getum ekki ímyndað okkur að komi upp hér við strendur Íslands. Með því að tryggja þeim bestu og öflugustu tækin gerum við þeim kleift að vinna störf sín af öryggi og sem með minnstri áhættu. Svo verður einnig með hinum nýja Þór. Megi gæfa fylgja hinu nýja skipi og áhöfn þess. Til hamingju með daginn.”

Margir fögnuðu Þór við Miðbakka í dag.

Að loknu ávarpi ráðherra flutti séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur blessunarorð og afhenti Sigurði Steinari Ketilssyni skipherra biblíu að gjöf.

Gestir gátu síðan gengið um skipið og skoðað hinar ýmsu vistarverur og vinnuaðstöðu.

Þór er 4.049 brúttótonn að stærð, 93,8 m langur og 16 m breiður. Mesta djúprista er 6,5 metrar og ganghraði er 18 mílur á 90% afli. Í áhöfn er gert ráð fyrir 14 til 48 manns. Þór verður til sýnis föstudag, laugardag og sunnudag milli klukkan 13 og 17.

Skipherrann ræðir við forsetann og ráðherra í brúnni.

 

Sigurður Steinar Ketilsson skipherra ræðir hér við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, Ögmund Jónasson innanríkisráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Hér að neðan má sjá hvar Sigurður Steinar skipherra og Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, kveðja þau Ögmund Jónasson innanríkisráðherra og Ragnhildi Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra.

Skipherra og forstjóri gæslunnar fygldu innanríkisráðherra og ráðuneytisstjóra frá borði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta