Svansmerktar vörur eru Ágætis byrjun
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, afhenti fyrsta pokann í verkefninu Ágætis byrjun á heilsugæslunni Miðbæ í gær. Pokinn inniheldur bækling um kosti þess að velja Svansmerktar vörur fyrir ungabörn og vöruprufur en Svanurinn hefur vottað breitt úrval af ungbarnavörum. Þannig hafa foreldrar raunverulegt val um vöru fyrir börn sín sem er betri fyrir heilsu þeirra og umhverfið.
Það voru nýbakaðir foreldrar, Auður Jörundsdóttir og Benedikt Hermannsson sem tóku við fyrsta pokanum fyrir hönd sex vikna gamals sonar síns. Verkefnið er á vegum Umhverfisstofnunar að norskri fyrirmynd en sambærilegt verkefni hefur verið í gangi í Noregi frá árinu 2005. Verkefninu er ætlað að ná til alls landsins og er miðað við að öll börn fædd á Íslandi á tímabilinu nóvember 2011 til nóvember 2012 fái pokann.
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Nánari upplýsingar um Svaninn og verkefnið má finna á www.svanurinn.is.