Hnattvæðingarþing og fundur forsætisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltríkja í dag
Á hnattvæðingarþingi sem haldið var í Kaupmannahöfn í dag, fjölluðu forsætisráðherrar Norðurlandanna um stöðu mála samkvæmt norrænu hnattvæðingarvoginni, svo og möguleika á sérstökum samstarfsverkefnum tengdum grænum hagvexti. Vinnuhópur var skipaður af forsætisráðherrunum sumarið 2010 til að vinna að tillögum um slík verkefni og voru skýrsla hópsins og tillögur um samstarfsverkefni til umræðu á hnattvæðingarþinginu.
Á þinginu var jafnframt fjallað um fjármögnun og aðkomu stjórnvalda í tengslum við grænan hagvöxt og flutti forseti Norræna fjárfestingarbankans, Johnny Åkerholm, erindi um það málefni.
Fundur ráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna var haldinn síðdegis í dag. Var þar fjallað um tillögur um nánara samstarf ríkjanna átta, kynnt var áætlun dönsku formennskunnar í Evrópusambandinu fyrri helming ársins 2012 og fjallað var um efnahagsástandið í Evrópu og á alþjóðavettvangi. Einnig var rætt um alþjóðamál, meðal annars stöðu mála í ríkjunum við Miðjarðarhaf og í Norður-Afríku, umsókn Palestínu um aðild að Sameinuðu þjóðunum og stöðu mála í Líbýu.
Á myndinni eru forsætisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja