Samkomulag um rannsóknarverkefni
Innanríkisráðuneytið og Háskólinn á Akureyri hafa samið um að HA ráðist í könnun á viðhorfum sveitarstjórnarmanna og alþingismanna til eflingar sveitarstjórnarstigsins og tengdra málefna. Slík könnun var áður gerð árið 2006.
Verkefnið vinna Grétar Þór Eyþórsson og fleiri fyrir hönd Háskólans á Akureyri að beiðni innanríkisráðuneytisins. Samningurinn nær til undirbúnings, framkvæmdar og skýrslugerðar á viðhorfskönnun meðal sveitarstjórnarmanna og alþingismanna til ýmissa þátta er varða eflingu sveitarstjórnarstigsins. Með sveitarstjórnarmönnum er átt við alla kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum landsins, auk framkvæmdastjóra sveitarfélaga sem ekki eru jafnframt kjörnir. Nær hún því til alls 586 einstaklinga.
Spurt er allt 30 spurninga og þær síðan greindar eftir nokkrum bakgrunnsbreytum. Könnunin er vefkönnun og gert ráð fyrir að frumniðurstöður verði kynntar Nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins í nóvember/desember og að skýrsluskil verði fyrir lok desember 2011. Kynning skýrslu og ítarlegra niðurstaðna fer fram á málþingi um framtíð sveitarstjórnarstigsins á vegum Háskólans á Akureyri og fyrrgreindrar nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem haldin yrði í janúar á næsta ári.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Grétar Þór Eysteinsson skrifuðu undir samninginn í húsakynnum Háskólans á Akureyri í gær að viðstöddum þeim Þorleifi Gunnlaugssyni, formanni nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins, og Stefáni B. Sigurðssyni, rektor Háskólans á Akureyri.