Óskað eftir umsögnum vegna nýrrar skipulagsreglugerðar
Skipulagsstofnun hefur skilað drögum að nýrri skipulagsreglugerð til umhverfisráðuneytisins en í þeim er að finna nokkra nýbreytni í framsetningu skipulagseglugerðarinnar frá eldri reglugerð. Eldri reglugerð var kaflaskipt eftir viðfangsefnum og málsmeðferð og voru ákvæði um skipulagsstigin þar undir. Drögum að nýrri reglugerð er hins vegar skipt í kafla eftir skipulagsstigum sem innihalda ákvæði um málsmeðferð og viðfangsefni hvers skipulagsstigs.
Markmiðið með þessum breytingum er að veita betri yfirsýn og samhengi í ferli hvers skipulagsstigs frá upphafi skipulagsgerðar til gildistöku skipulagsáætlunar.
Þá er leitast við að skerpa á viðfangsefni hvers skipulagsstigs. Þannig er m.a. í kaflanum um aðalskipulag lögð áhersla á stefnumótun um mismunandi viðfangsefni og sjálfbæra þróun og í kaflanum um deiliskipulag er lögð áhersla á gæði byggðar og að skipulagsskilmálar séu skýrir með tilliti til réttaráhrifa.
Vinnan við endurskoðun reglugerðarinnar var einnig með öðrum hætti en áður. Þegar fyrir lá samþykkt Alþingis á skipulagslögum nr. 123/2010 í september 2010, var yfir 70 aðilum tilkynnt að endurskoðunin væri hafin og þeim gefinn kostur á að koma með ábendingar. Þessum aðilum var jafnframt boðið til málstofu til að ræða áherslur og helstu viðfangsefni í nýrri skipulagsreglugerð. Samhliða voru skipaðir þrír vinnuhópar, einn um landsskipulagsstefnu, einn um svæðis- og aðalskipulag og einn um deiliskipulag. Voru vinnuhópar þessir skipaðir fulltrúum sveitarfélaga, umhverfisráðuneytisins og Skipulagsstofnunar.
Reglugerðardrögin hafa nú verið send til umsagnar en frestur til að skila umsögnum er til 1. desember næstkomandi. Umsagnir skulu sendar í tölvupósti á [email protected] eða á:
Umhverfisráðuneytið
Skuggasundi 1
150 Reykjavík