Utanríkisráðherra undirritar samning við Háskóla Sameinuðu þjóðanna um starfsemi Jarðhitaskólans
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri og Dr. Konrad Osterwalder, rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ), skrifuðu í dag undir framlengingu á samningi um Jarðhitaskóla HSÞ til ársins 2014.
Allsherjarþing SÞ stofnaði Háskóla Sameinuðu þjóðanna árið 1973 í því skyni að styðja við framgang markmiða og grundvallarreglna stofnsáttmála SÞ með rannsóknum, menntun og þekkingarmiðlun. Alþjóðlegt net 15 mennta- og rannsóknarstofnana um heim allan mynda HSÞ og er starf þeirra samhæft af aðalskrifstofu HSÞ í Tókíó.
Jarðhitaskóli HSÞ hóf starfsemi 1. mars 1979 og var fyrsti skólinn á Íslandi sem varð hluti af neti HSÞ. Sjávarútvegskóli HSÞ bættist í hópinn 1998 og Landgræðsluskóli HSÞ árið 2010. Samkvæmt áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011-2014 er Háskóli SÞ ein fjögurra alþjóðastofnana sem sérstök áhersla verður lögð á að styðja í marghliða þróunarsamstarfi Íslands. Jarðhitaskólinn spilar þar mikilvægt hlutverk en skólinn veitir sérfræðingum frá þróunarlöndum sérhæfða þjálfun í rannsóknum og nýtingu jarðhita. Starf skólans byggist á sex mánaða námi á Íslandi auk þess að styðja sérfræðinga til meistara- og doktorsnáms hér á landi. Þá eru reglulega haldin námskeið á vegum skólans í þróunarlöndum. Frá upphafi hafa yfir 450 nemendur stundað nám við skólann og frá því að námskeiðahald hófst árið 2005 hafa tæplega fimm hundruð sérfræðingar sótt námskeið skólans í þróunarlöndum.