Vilja vera hluti af lausninni, ekki vandamálinu
Scandic hótelkeðjan fékk í gær umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2011 sem afhent voru í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs sem nú er haldið í Kaupmannahöfn. Verðlaunaféð er 350 þúsund danskra króna eða um 7,5 milljónir íslenskra króna.
Scandic keðjan hefur verið í fararbroddi sjálfbærrar ferðaþjónustu í tæp 20 ár en upphaflega var það starfsmaður hótelanna sem kom með þá hugmynd að biðja hótelgesti um að leggja sitt lóð á vogarskálarnar við að draga úr þvotti með því að skipta ekki um handklæði á hverjum degi. Scandic hótelin voru einnig meðal þeirra fyrstu til að nota fljótandi sápu í stórum brúsum í stað fjölda lítilla plastflaska og sápustykkja. Þótt þessar aðgerðir virðist ekki stórvægilegar hafa þær haft mikil áhrif og orðið til þess að verklagi á hótelum víða um heim hefur verið breytt með sama hætti.
Í ræðu sinni þakkaði forstjóri Scandic í Noregi starfsmönnum hótelkeðjunnar og sagðist vonast til að umhverfisstefna Scandic gæti orðið öðrum fyrirtækjum innblástur. Hann sagði markvisst umhverfisstarf krefjast bæði tíma og þolinmæði og að allir starfsmenn viðkomandi fyrirtækis þyrftu að taka fullan þátt í því. Svo væri um starfsmenn Scandic.
Frá því hótelkeðjan tók þá ákvörðun árið 1993 að efla umhverfisstarf sitt hefur hún þjálfað yfir 11 þúsund starfsmenn í umhverfismálum og byggt yfir 19 þúsund herbergi úr vistvænum byggingarefnum. Alls eru 114 af 147 hótelum keðjunnar á Norðurlöndum vottaðar með norræna umhverfismerkinu Svaninum.
Frá árinu 1994 hefur vatnsnotkun hótelanna dregist saman um 17%, orkunotkun um 22 % og losun gróðurhúsalofttegunda um 38 %. Boðið er upp á lífrænt ræktað kaffi sem að auki er vottað með „fairtrade” merkinu, en það staðfestir sanngjarna viðskiptahætti. Þá er ekki boðið upp á vatn í vatnsflöskum, en sú aðgerð ein dregur árlega úr losun koldíoxíðs um 160 tonn vegna minni flutninga.
Á blaðamannafundi sem haldinn var í gær lagði forstjóri Scandic í Danmörku áherslu á ábyrgð fyrirtækisins gagnvart komandi kynslóðum. „Við viljum afhenda börnum okkar betri heim. Það gerum við með stórum og litlum aðgerðum í daglegu lífi. Við trúum á framtíðina og grípum því til aðgerða í dag. Við viljum vera hluti af lausninni, ekki vandamálinu.”