Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2011 Matvælaráðuneytið

12. fundur samstarfsnefndar Íslands og Rússlands um sjávarútvegsmál

12 samstarfsfundur ísl og Rússl nov-2011
12 samstarfsfundur ísl og Rússl nov-2011
Nr. 57/2011

 

12. fundur samstarfsnefndar Íslands og Rússlands um sjávarútvegsmál

 

Tólfti fundur samstarfsnefndar Íslands og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegsmála var haldinn í Moskvu dagana 2.-3. október 2011. Á fundinum voru rædd þau mál sem helst eru á döfinni varðandi samstarf landanna á vettvangi sjávarútvegsmála.

Á fundinum skiptust fulltrúar landanna á upplýsingum um framkvæmd samningsins frá 15. maí 1999 milli ríkisstjórnar Íslands, Noregs og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs (Smugusamningur). Þannig var fjallað um samstarf á sviði veiðieftirlits, hafrannsókna og veiðistjórnunar sameiginlegra stofna á Norður-Atlantshafi, m.a. úthafskarfa, kolmunna, norsk-íslenskrar síldar og makríls.

Á fundinum var sérstaklega rætt um mikilvægi þess að Rússar verði aðilar að samkomulagi sem náðist fyrr á árinu um stjórnun úthafskarfaveiða á Reykjaneshrygg. Ísland áréttaði vonbrigði sín með afstöðu Rússlands til ráðgjafar ICES um stofnstærð og stofngerð og nauðsynjar þess að draga úr veiðum. Að óbreyttu muni óhóflegar veiðar Rússlands draga úr möguleikum þess að rétta megi við bága stöðu stofnanna. Af hálfu Íslands var lögð áhersla á að framtíðarveiðistjórnunin byggi á þeirri vísindalegu þekkingu og ráðgjöf sem liggur fyrir. Þá var jafnframt rædd staðan í samningaviðræðum um makríl og lýstu báðir aðilar yfir mikilvægi þess að fyrr en síðar náist samkomulag aðila um framtíðarveiðistjórnun sem tryggt getur sjálfbæra nýtingu stofnsins.

Alls koma 6.835 tonn af þorski í hlut Íslands á grundvelli samnings ríkjanna tveggja á árinu 2012. Meðaflaheimild í ýsu verður áfram 20%, sbr. samkomulag frá síðasta ári, og nemur 1.367 tonnum en meðaflaheimild í öðrum tegundum nemur 10% aflaheimilda í þorski. Af heildarþorskheimildinni eru 2.563tonn sem eru sölukvóti sem íslenskar útgerðir hafa rétt á að kaupa samkvæmt samningnum og eru til frádráttar þeim 6.835 tonnum sem koma í hlut Íslands á næsta ári.

Einnig ræddu ríkin um frekara samstarf á sviði sjávarútvegsmála á fjölþjóðlegum vettvangi þar sem áherslur og hagsmunir ríkjanna tveggja fara oft saman. Þá var rætt um mögulegt aukið tvíhliða samstarf á fjölþættum sviðum sjávarútvegs.

Að loknum fundinum lýstu báðir aðilar yfir ánægju með viðræðurnar og mikilvægi þeirra í tvíhliða samskiptum ríkjanna.

Af hálfu Íslands sóttu fundinn þeir Steinar Ingi Matthíasson, formaður sendinefndarinnar, og Kristján Freyr Helgason frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Albert Jónsson sendiherra, Ólafur S. Ástþórsson frá Hafrannsóknastofnuninni, Auðunn Ágústsson frá Fiskistofu og Rúnar Þór Stefánsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.

12 samstarfsfundur ísl og Rússl nov-2011

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta