45 þúsund tonna síldarafli
45 þúsund tonna síldarafli
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið í framhaldi af ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunarinnar 3. nóvember síðastliðinn að hækka heildarafla í íslenskri sumargotssíld um 40 þúsund tonn. Fyrr á þessu hausti úthlutaði ráðherra 5 þúsund tonnum í sama aflamarki. Samtals er því heildaraflamark í sumargotssíld 45 þúsund tonn. Þar af fara 2 þúsund tonn í sérstaka úthlutun til minni báta og vegna óhjákvæmilegs meðafla við aðrar veiðar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 70/2011. Af þessum 2.000 tonnum hafa 350 tonn þegar verið boðin til úthlutunar gegn gjaldi.
Rannsóknir Hafrannsóknarstofnunarinnar við Suður- og Suðausturland sumarið 2011 og haustið 2010 sýna að síld þar er minna sýkt en síld við Vesturland og fullorðin síld er blönduð smásíld. Í ljósi þessa er ákveðið að vernda síld á þessum svæðum. Með breytingu á reglugerð 770 frá 2006 er veiði á sumargotssíld til bráðabirgða takmörkuð við Faxaflóa og Breiðafjörð eða svæði sem nær frá Garðskagavita að Bjargtöngum.