Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Brjótum múra

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherraGuðbjartur Hannesson velferðarráðherra ræddi meðal annars um mikilvægi opinberrar stefnu í málefnum innflytjenda, með áherslu á samfélag þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna, þegar hann ávarpaði fjölmenningarráðstefnuna Brjótum múra sem haldin var á Akranesi síðastliðinn föstudag. 

Ráðherra sagði að saga innflytjenda á Íslandi í einhverjum mæli væri stutt. Fram undir lok 20. aldarinnar hefðu langflestir innflytjendur hér á landi verið frá hinum Norðurlandaþjóðunum en fátítt að fólk af öðrum þjóðernum flytti hingað. Í byrjun tíunda áratugarins hefði innflytjendum frá öðrum löndum fyrst tekið að fjölga að ráði. Árið 1996 voru innflytjendur á Íslandi tæplega 5.400 eða um 2% landsmanna. Þann 1. janúar 2008 voru þeir hins vegar orðnir rúmlega 25.000 eða um 8,6% mannfjöldans en árið 2010 hafði hlutfallið lækkað í 6,8%.

Ráðherra sagði þetta gífurlegar breytingar á skömmum tíma. Hlutfall innflytjenda væri nú álíka hátt hér á landi og í Noregi og Danmörku en aftur á móti væri hlutfall annarrar kynslóðar innflytjenda mun lægra hér á landi.

„Sýn samfélagsins á innflytjendur eins og hún var þau ár sem langflestir komu hingað til lands er umhugsunarefni. Á tímum stórframkvæmda og óhóflegrar þenslu var þörf fyrir utanaðkomandi vinnuafl, íslenskt samfélag þurfti á því að halda. Umræðan markaðist af þessu: Við þurftum fleiri iðnaðarmenn í ýmsum greinum og einnig ófaglært fólk í byggingariðnaðinn og fiskvinnslu svo eitthvað sé nefnt. Það virtist hins vegar gleymast að hverjar tvær vinnandi hendur tilheyrðu einstaklingi sem af einhverjum ástæðum hafði rifið sig upp frá heimalandinu og sett stefnuna á Ísland, ekki endilega til þess eins að vinna og hverfa svo aftur heim, heldur allt eins með von um bjarta framtíð í nýju landi. Að baki hverjum einstaklingi er iðulega fjölskylda, maki og börn sem einnig eiga væntingar um betri tíma. Það var lítið rætt um fólkið sem hingað kom sem þátttakendur í samfélaginu í víðum skilningi, aðstæður þess hér, bakgrunn þess í heimalandinu eða framtíð þess á Íslandi.“

Ráðherra lagði áherslu á að þótt tölulegar upplýsingar um fjölda innflytjenda og hvaðan þeir kæmu væru vissulega gagnlegar og upplýsandi. Hins vegar þyrfti að hafa hugfast að þær segðu ekkert um fólkið á bak við þær:

„Hvaða fólk er þetta, hvers vegna kom það hingað og hvað er það að gera? Hver er bakgrunnur þess, hvernig er kynjaskiptingin, aldurssamsetningin, búsetudreifingin, hver er líðan fólksins hér á landi, hverjar eru væntingar þess og hvernig er þeim mætt? Allt þetta og svo margt fleira er mikilvægt að vita og vinna með ef við viljum búa í fjölmenningarsamfélagi sem stendur undir nafni“ sagði velferðarráðherra og lagði áherslu á mikilvægi rannsókna í þessu sambandi.

„Við erum skuldbundin öllu því fólki sem hingað hefur komið og lagt mikið af mörkum til íslensks samfélags og gert það ríkara í margvíslegum skilningi. Við eigum að styðja við það fólk sem vill skjóta hér rótum og vera þátttakendur í íslensku samfélagi. Við eigum að stuðla að gagnkvæmri aðlögun, vinna gegn fordómum og efla víðsýni í samfélaginu, það er í okkar allra þágu.

Það er ánægjulegt að segja frá því hér að smíði frumvarps um málefni innflytjenda er langt komin í velferðarráðuneytinu og stefnt að því að leggja það fram fyrir áramót. Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er markmiðið að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Þetta verður fyrsta heildstæða löggjöfin um málefni innflytjenda þar sem mælt er fyrir um á skýran hátt hvernig stjórnsýslu málaflokksins skuli háttað og verði frumvarpið að lögum tekst með því að festa í sessi ákveðið starfsumhverfi sem mótast hefur á grundvelli reynslu undanfarinna ára.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta