Útlit fyrir góða sprettu nýsköpunar á Norðvesturlandi
Það eru góðir hlutir að gerast á Norðvesturlandi í tengslum við vaxtarsamning Samtaka sveitarfélaga á Norðvesturlandi (SSNV) og iðnaðarráðuneytisins. Upprunalegi samningurinn var gerður árið 2008 og markmiðið var skýrt ; Að efla
atvinnulíf og byggðaþróun á svæðinu með því að byggja á þeim styrkleikum sem svæðið býr yfir til frekari vaxtar.
Nýlega var Vaxtarsamningurinn endurnýjaður til loka árs 2013 og er framlag iðnaðarráðuneytisins 30 milljónir króna á ári.
Reynslan af vaxtarsamningnum hefur verið mjög góð og í nýlegri könnun kemur mjög afdráttarlaust í ljós að vaxtarsamningurinn þykir hafa skipt sköpum við uppbyggingu nýrra fyrirtækja. Fyrirtæki í menningartengdri ferðaþjónustu eru áberandi í þeim hópi og má þar nefna m.a. Sturlungaslóð í Skagafirði, Spákonuhof á Skagaströnd, Selasetur Íslands á Hvammstanga og Hálendismiðstöð á Hveravöllum.
Vaxtarsamningurinn hefur jafnframt verið aflvaki uppbyggingar á þekkingar- og rannsóknarstarfi og má í því samhengi nefna Biopol sjávarlíftæknisetrið á Skagaströnd og Verk- og vísindagarða á Sauðárkróki.
Í tengslum við vaxtarsamninginn er lögð mikil áhersla á að efla samstarf fyrirtækja, háskóla og opinberra stofnana og þróa áfram klasasamstarf vaxtargreina svæðisins og efla svæðisbundna sérþekkingu á vel skilgreindum styrkleikasviðum. Með þessu er vonast til að það takist að fjölga samkeppnishæfum fyrirtækjum og störfum og
jafnframt að auka fjárfestingu og þekkingu á svæðinu.