Mikil hagræðing fólgin í þinglýsingu rafrænna skjala
Þinglýsingar rafrænna skjala er sameiginlegt verkefni fjármálaráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins og Þjóðskrár Íslands.
Markmið verkefnisins er að auka sjálfvirkni og hagkvæmni við þinglýsingar. Út er komin skýrsla greiningarhóps sem greindi, ásamt hagsmunaaðilum, núverandi þinglýsingarkerfi, mögulegar lausnir og hindranir við upptöku þinglýsinga rafrænna veðskjala.
Meginniðurstaða hópsins er að stefna beri að þinglýsingu rafrænna skjala sem fyrst, það sé hagkvæmt fyrir alla aðila og engar tæknilegar hindranir standa í veginum. Minnisblað þar sem þessar meginniðurstöður voru kynntar var lagt fram á ríkisstjórnarfundi 4. nóvember sl. og var það samþykkt af ríkisstjórn.
Innanríkisráðuneytið áætlar að sparnaður sem hlýst við þinglýsingu rafrænna skjala hjá sýslumannsembættum landsins yrði að minnsta kosti 70 - 80 milljónir á ári nái verkefnið fram að ganga. Þá er það mat greiningarhópsins að heildarsparnaður fjármálafyrirtækja gæti þá numið allt að 275 milljónum á ári ef mið er tekið af fjölda veðskuldabréfa undanfarin 10 ár. Sparnaður ætti því að geta orðið verulegur hjá lánastofnunum og sýslumannsembættum.
Eins ætti almenningur að fá betri þjónustu og öryggi að aukast til muna og að auki myndi tímasparnaður aukast verulega hjá almenningi vegna ferða og biðtíma. Því er það niðurstaða hópsins að verkefnið sé þjóðhagslega hagkvæmt og falli vel að stefnu ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið 2008-2012.
- Þinglýsingar rafrænna skjala (PDF 4,5 MB)