Lög samþykkt um breytingu á reglum um varnarþing vegna riftunarmála og riftunarfrest.
Með lögum nr. 146/2011 er XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki breytt í þeim tilgangi að lögleiða sérstakt varnarþingsákvæði um riftunarmál vegna fjármálafyrirtækja sem tekin hafa verið til slita hér á landi og framlengdur frestur til að höfða riftunarmál vegna gerninga fjármálafyrirtækja.
Verulegir hagsmunir eru í húfi fyrir bú fjármálafyrirtækja sem tekin hafa verið til slita hérlendis að lögleidd hafi verin sérstök varnarþingsregla vegna riftunarmála og þannig tryggt að mögulegt verði að beita íslenskum lögum við úrlausn riftunarmála. Nauðsynlegt er að lengja fyrirningafrest í 30 mánuði, enda getur undirbúningur vegna riftunarmála við slitameðferð fjármálafyrirtækja verið gríðarlega umfangsmikill. Heimildir laga um riftun gerninga hafa það að markmiði að gæta jafnræðis kröfuhafa, þ.e. að einstakir kröfuhafar séu ekki betur settir en aðrir vegna ráðstafana fjármálafyrirtækis áður en slitameðferð hófst. Í ljósi umfangs þeirra fjármálafyrirtækja sem nú eru í slitameðferð eru miklar líkur á að markmið um jafnræði kröfuhafa hefðu farið forgörðum hefði lenging frestsins ekki komið til, en nauðsynlegt er að slitastjórnir nái að gæta hagsmuna búa bankanna með sem bestum hætti. Til að koma í veg fyrir að sú staða kæmi upp að frestur fjármálafyrirtækja í slitum til að höfða riftunarmál renni út án þess að tekist hafi að birta stefnu í tæka tíð var fresturinn því framlengdur um 6 mánuði.
Markmið breytinganna eru að tryggja jafnræði kröfuhafa fjármálafyrirtækja í slitum með því að framlengja frest til riftunar og tryggja að riftanlegar ráðstafanir verði metnar eftir sömu reglum, burtséð frá því hvort um innlenda eða erlenda aðila sé að ræða. Með því að tryggja að úr ágreiningi sé unnið eftir innlendum reglum er samræmi við úrlausn riftunarmála tryggt, en tilskipun 2001/24/EB gerir ráð fyrir því að endurskipulagning og slit fjármálafyrirtækja skuli fara eftir lögum eins ríkis. Þá má einnig benda á að um augljóst hagræði er að ræða fyrir slitastjórnir, sem þurfa ekki að leggja út í umtalsverðan sérfræðikostnað við málshöfðun erlendis, auk þess sem dómsúrlausnir munu stafa frá innlendum dómurum sem búa yfir þekkingu á reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og beitingu þeirra í dómaframkvæmd. Loks er aðgengi að dómstólum tryggt og komið í veg fyrir hugsanlega frávísun/heimvísun málsins innan Evrópska efnahagssvæðisins, en ekki er útilokað að dómstólar í öðrum aðildarríkjum gætu litið svo á að mál væri ranglega höfðað þar í landi.