Ánægja með ýmislegt í framkvæmd barnasáttmála SÞ á Íslandi
Niðurstöður barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna á framkvæmdar Íslands á barnasáttmála SÞ voru kynntar fimmtudaginn 17. nóvember. Sendinefnd Íslands sat fyrir svörum á fundi í Genf í lok september og kynnti nefndin undirbúning og framkvæmd fyrirtöku sérfræðinganefndar SÞ auk þess sem hún kynnti helstu niðurstöður barnaréttarnefndarinnar.
Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, fór fyrir sendinefndinni og flutti inngangsorð við fyrirtökuna. Auk hennar voru fulltrúar Íslands þau María Rún Bjarnadóttir, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, Guðni Olgeirsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, og Margrét Björnsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu. Einnig sat fundinn Veturliði Stefánsson, fulltrúi fastanefndar Íslands í Genf.
Ánægja með samvinnu í stjórnsýslunni
Á fundinum í fyrradag kom fram að skýrslu Íslands hefði verið skilað árið 2009 og að nefndin hefði óskað eftir þó nokkrum viðbótarupplýsingum á þessu ári áður en fyrirtaka á grundvelli skýrslunnar fór fram í september síðastliðnum. Í máli nefndarinnar kom fram að sérstaklega ánægjulegt hefði verið hversu vel stjórnsýslan hefði náð að vinna saman að þessu mikilvæga verkefni þvert á ráðuneyti og stofnanir.
Við fyrirtökuna í Genf setti sérfræðinganefndin fram gagnrýnar spurningar sem íslenska sendinefndin leitaðist við að svara með sjálfsgagnrýnum og heiðarlegum hætti. Fjallað var um helstu athugasemdir nefndarinnar meðal annars varðandi mikilvægi þess að hagsmunir barns séu ávallt hafðir að leiðarljósi, til dæmis í umgengismálum, ýmsa stofnanaþætti varðandi stofnanauppbyggingu málaefna barna, svo sem að gögnum og upplýsingum um fjárveitingar sé safnað og þær greindar með tilliti til barna, að komið verði á laggirnar aðila sem samræmi stefnu og framkvæmd stjórnvalda varðandi sáttmálann og að fundinn verður farvegur fyrir kvartanir barna og í því skyni rætt um umboð umboðsmanns barna skv. lögum.
Rætt var um mikla áherslu nefndarinnar á að íslensk stjórnvöld lögfesti sáttmálann og aflétti í því skyni fyrirvara sínum við 37. gr. sáttmálans um að börn skuli ekki vistuð með fullorðnum föngum. Halla og Bragi ræddu mikið um þennan fyrirvara og að mikil vinna hafi átt sér stað við að koma vilja Alþingis sem speglast í þingsályktunartillögu þess efnis um að lögfesta sáttmálann. Í því skyni hafi löggjöf verði greind og frumvarp útbúið í innanríkisráðuneytinu til þess að lögfesta sáttmálann. Varðandi málefni ungra fanga hafa tillögur verið unnar í samstarfi innanríkisráðuneytisins, Barnaverndarstofu og Fangelsismálastofnunar, en fjármagn hefur ekki fundist til þess að framkvæma þessar tillögur.
Fram kom að sérfræðinganefndin var ánægð með margt sem fram kom í máli íslensku sendinefndarinnar, meðal annars varðandi menntamálin, þó að þau hafi haft áhyggjur af tilteknum þáttum á borð við brottfall innflytjendabarna úr framhaldsskólum. Stjórnvöld hafa brugðist við þessu með því að óska eftir aðstoð OECD við að leysa þennan vanda.
Áhyggjur vegna niðurskurðar
Ýmis mál varðandi heilsu og heilbrigðismál voru einnig til umfjöllunar meðal annars brjóstagjöf, geðheilbrigðismál, offitu barna og barnaverndarmál. Mikið af því verklagi sem tíðkast á Íslandi var sagt til fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi og þá sérstaklega Barnahús. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur þó ekki nýtt sér Barnahúsið líkt og aðrir dómstólar auk þess sem að verulegur niðurskurður á næstu fjárlögum veldur áhyggjum af framhaldi á mikilvægum verkefnum eins og aðkomu Barnaverndarstofu að heimilisofbeldismálum.
Fulltrúar frjálsra félagasamtaka sem unnu skuggaskýrslur vegna skýrslu Íslands til barnaréttarnefndarinnar fjölluðu um framkvæmd sáttmálans á Íslandi og það sem betur má fara. Samtökin lögðu áhersu á að athugasemdum nefndarinnar yrði komið í farveg og að stjórnvöld ynnu markvisst að þær myndi ekki bara daga uppi í kerfinu. Fulltrúar frjálsu félagasamtakanna ræddu um fjölmargar athugasemdanna og mikilvægi þess að skera ekki niður hjá þessum þjóðfélagshópi. Brýndu þeir fyrir fundarmönnum að þeir yrðu að vera talsmenn barna því þau hefðu ekki alltaf tækifæri til þess að sinna eigin hagsmunagæslu.
Miklar og fjörugar umræður spunnust um fjölmargar hliðar athugasemdanna. Tilkynnt var um að stjórnvöld stefndu að því að finna athugasemdunum formfastan farveg svo tryggt væri að fyrir skil næstu skýrslu árið 2018 væri hægt að upplýsa um að þær hefðu allar fengið umfjöllun og helst komist til framkvæmda.