Nýsköpunarverkefnið Ísland allt árið ... og þróunarsjóður til að auka kraftinn!
Nýsköpun er ekki bundin við fyrirtæki eða einstaklinga – heilu löndin geta verið með kraftmikil nýsköpunarverkefni eins og átakið „Ísland allt árið“ er gott dæmi um.
Í tengslum við „Ísland allt árið“ hefur iðnaðarráðuneytið tekið höndum saman við Landsbankann og komið á fót þróunarsjóði til að styrkja álitleg heilsársverkefni í ferðaþjónustu. Sjóðurinn mun einkum styrkja fyrirtæki sem þegar eru starfandi í ferðaþjónustu og hafa mótaða viðskiptahugmynd sem hægt er að útfæra. Samkvæmt viljayfirlýsingu stofnenda er talið æskilegt að styrkja verkefni sem auka þjónustuframboð á tilteknum svæðum og styðja klasasamstarf þar sem saman gætu komið fyrirtæki, samtök heimamanna og sveitarfélög.
Heildarframlag stofnenda sjóðsins á þessu ári og því næsta verður 70 milljónir króna. Stofnendur sjóðsins ætla honum að taka virkan þátt í uppbyggingu fyrirtækja og verkefna í ferðaþjónustu sem skapað geta heilsársstörf og aukið þannig tekjur samfélaginu öllu til heilla.