Merkin sýna verkin
„Það kemur nú æ betur í ljós að lífskjarasókn er hafin á Íslandi. Merkin um efnahagsbatann eru skýr og eftir þeim hefur verið tekið. Árangurinn á Íslandi hefur á undanförnum vikum ratað á síður stórblaða heimsins og um hann verið fjallað af alþjóðlegum matsfyrirtækjum og fremstu hagfræðingum heims.“
Svo segir í grein forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Í greininni er fjallað um þau jákvæðu umskipti sem orðið hafa á efnahag Íslands eftir hrun og staðan borin saman við önnur lönd innan OECD. Greinina í heild má lesa hér, en henni lýkur forsætisráðherra með svofelldum orðum:
„Aðeins með öguðum vinnubrögðum og skýrt markaðri stefnu verður Ísland samkeppnisfært um fólk og fyrirtæki. Á okkur hvílir sú skylda að tryggja íslensku þjóðinni, ekki síst okkar unga fólki, viðvarandi lífskjör sem eru sambærileg við þau sem best gefast í heiminum. Árangurinn í endurreisn efnahagslífsins á Íslandi eftir hrun gefur góð fyrirheit að þessu leyti – merkin sýna verkin!“