Loftslagsviðræður hafnar í Durban
Ísland er meðal þeirra ríkja sem hafa lýst sig reiðubúin til að taka á sig skuldbindingar undir Kýótó-bókuninni svokölluðu á nýju tímabili hennar, náist um það alþjóðlegt samkomulag. Með því vill Ísland sýna ábyrgð í loftslagsmálum, þar sem Kýótó-bókunin er eina lagalega bindandi samkomulagið á heimsvísu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra kynnti á föstudag í ríkisstjórn stöðu mála í alþjóða loftslagsviðræðum en 17. árlegi aðildarríkjafundur Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna hefst í Durban í Suður-Afríku í dag og stendur til 9. desember. Fundinum er ætlað að ná árangri í viðræðum um nýtt framtíðarsamkomulag í loftslagsmálum sem tæki við af fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar, en því lýkur í árslok 2012.
Almennt eru væntingar hóflegar fyrir viðræðurnar framundan í Durban, enda hafa ríki á borð við Rússland, Japan, Kanada og Bandaríkin lýst því yfir að þau séu ekki tilbúin til að taka á sig skuldbindingar undir Kýótó-bókuninni eftir 2012. Þau ríki sem hafa lýst sig reiðubúin að taka á sig nýjar skuldbindingar standa aðeins fyrir um 16% af hnattrænni losun gróðurhúsalofttegunda og hafa sett það sem skilyrði að önnur þróuð ríki taki á sig sambærilegar skuldbindingar og þau og að stór þróunarríki á borð við Kína, Indland og Brasilíu taki einnig á sig aukna ábyrgð.
Ísland hefur tilkynnt um framtíðarmarkmið sín um minnkun losunar, sem felast í því að taka þátt í sameiginlegu markmiði með ríkjum ESB um að minnka losun um 30% til 2020 miðað við 1990. Þetta markmið byggir á samkomulagi við ESB frá 2009 og er óháð aðildarviðræðum við ESB. Aðstæður á Íslandi eru töluvert ólíkar því sem gerist í nær öllum öðrum þróuðum ríkjum, einkum hvað varðar hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og mikilla möguleika á bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.
Þótt mikið beri í milli aðila fyrir Durban-fundinn binda menn vonir við að þar náist bráðabirgðasamkomulag um framhald Kýótó-bókunarinnar. Ljóst er að hver sem útkoma viðræðnanna verður muni kröfur til Íslands um aðgerðir til að draga úr losun og leggja þróunarlöndum lið aukast á komandi árum. Ísland hefur nýlega tilkynnt um aukna styrki til loftslagsverkefna, m.a. á sviði endurnýjanlegrar orku og til þess að efla þátttöku kvenna í loftslagsverkefnum í þróunarríkjunum. Hafa áherslur Íslands í samningaviðræðunum m.a. lotið að jafnréttismálum, vernd og endurheimt votlendis og eflingu endurnýjanlegrar orku og loftslagsvænnar tækni.