Alþingi samþykkir viðurkenningu á Palestínu
Alþingi samþykkti í dag þingsályktunartillögu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra um að ríkisstjórninni verði falið að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Tillagan var samþykkt mótatkvæðalaust með 38 atkvæðum en 13 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Alþingi skorar á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna, og jafnframt að þeir láti af öllum hernaði og ofbeldisverkum og virði mannréttindi og mannúðarlög.
Utanríkisráðherra fagnar þeim breiða stuðningi sem alþingismenn hafa sýnt málstað Palestínumanna með samþykkt ályktunarinnar.
Ályktun Alþingis er svohljóðandi:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Jafnframt skorar Alþingi á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis.
Alþingi áréttar að PLO, Frelsissamtök Palestínu, eru hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar og minnir jafnframt á rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.
Alþingi krefst þess af deiluaðilum fyrir botni Miðjarðarhafs að þeir láti þegar í stað af öllum hernaði og ofbeldisverkum og virði mannréttindi og mannúðarlög.“