Framlög til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana hækkuð um rúmar 390 milljónir króna
Velferðarráðherra hefur lagt til að við aðra umræðu fjárlaga verði dregið úr þeirri hagræðingarkröfu sem gerð var til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana í fjárlagafrumvarpinu og að framlög til þeirra verði aukin um samtals 391,2 milljónir króna. Í meðfylgjandi skýrslu, „Greinargerð til velferðarráðherra um heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús vegna fjárlaga 2012“ er gerð nánari grein fyrir útfærslu þessarar breytinga og ástæðum þeirra.
Samráð um útfærslu
Við útfærslu fjárlaga ársins 2011 og við undirbúning fjárlaga 2012 hefur velferðarráðherra lagt sérstaka áherslu á samráð við stjórnendur heilbrigðisstofnana. Þannig fór faghópur ráðherra í samráði við stjórnendur heilbrigðisstofnana ítarlega yfir stöðu stofnana við endurskoðun fjárlaga fyrir árið 2011, haustið 2010, og voru áhrif aðhaldsaðgerða sem þá voru boðaðar metnar á starfsemi og þjónustu hverrar stofnunar fyrir sig. Niðurstaða þeirrar yfirferðar var sú að veruleg breyting varð á fjárlögum 2011 og var ríflega milljarður af boðaðri hagræðingarkröfu þá felldur niður en tæplega 600 milljónum króna var frestað til ársins 2012. Í kjölfarið var vinnuhópur á vegum ráðuneytisins stofnunum til ráðgjafar og fylgdist með framgangi fjárlaga ársins 2011.
Við gerð fjárlaga ársins 2012 hefur Velferðarráðuneytið haldið áfram nánu samráði við stjórnendur stofnana og starfsfólk þeirra um útfærslur á tillögum til aðhaldsaðgerða vegna fjárlaga. Í þessu samráðsferli hefur velferðarráðherra heimsótt flestar heilbrigðisstofnanir og farið yfir framkomið fjárlagafrumvarp með stjórnendum og opnum fundum með starfsfólki á hverjum stað. Megináherslan hefur verið lögð á að tryggja að stofnanirnar hafi, þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir, svigrúm til að veita þá þjónustu sem lög um heilbrigðisþjónustu gera ráð fyrir og að tryggja öryggi landsmanna. Ljóst er að stofnunum hefur gengið misvel að aðlaga sig breyttum aðstæðum og eru misvel í stakk búnar til að mæta enn frekari aðhaldskröfu, en almennt er það mat þeirra að tekist hafi að verja þjónustuna. Í tillögum þeim sem ráðherra hefur nú gert og fjárlaganefnd fallist á hefur nákvæmlega verið farið yfir stöðu hverrar stofnunar fyrir sig og staða þeirra metin út frá hlutverki þeirra til lengri tíma.
Guðbjartur Hannesson segir af þessu tilefni; „Það skiptir miklu máli að við höfum náð góðum takti með stjórnendum og starfsfólki þessara mikilvægu stofnana við útfærslu fjárlaga. Ég hef á ferðum mínum og öðrum fundum með starfsfólki og stjórnendum heilbrigðisþjónustunnar fundið og séð að fólk hefur lagt sig verulega fram á síðustu árum og það ber að þakka. Heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús hafa sannarlega lagt sitt af mörkum til þeirrar aðlögunar sem efnahagshrunið krafðist og nú tel ég að lokaskrefið hafi verið stigið.“
Greinargerð til velferðarráðherra um heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús vegna fjárlaga 2012