Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2011 Matvælaráðuneytið

Tillaga til þingsályktunar um erlenda fjárfestingu

Ríkisstjórnin samþykkti í dag tillögu til þingsályktunar um erlenda fjárfestingu. Í tillögunni er mikilvægi fjárfestingar í íslensku atvinnulífi áréttað og hvatt til gagnsærrar meðferðar mála er varða erlenda fjárfestingu og skýrra og ótvíræðra reglna um hana.

Um árabil hefur erlend fjárfesting verið lítil hér á landi og fjárfestingarumhverfið verið gagnrýnt fyrir að vera flókið og óaðgengilegt. Fjárfesting er lykilatriði fyrir efnahagsþróun hér á landi eftir hrun. Reynsla undanfarinna áratuga sýnir hversu varhugavert það er að reisa efnahagslíf alfarið á erlendu lánsfé. Efnahagslegur ávinningur af erlendri fjárfestingu er mun meiri en af innlendri fjárfestingu, byggðri á erlendri lántöku. Þess vegna er sókn eftir erlendri fjárfestingu lykilþáttur í efnahagsþróun norrænna velferðarsamfélaga. Nágrannalönd okkar leggja áherslu á að lagaumhverfi beinnar erlendrar fjárfestingar sé fyrirsjáanlegt og traust og sterkir innviðir styðji við erlenda nýfjárfestingu. Bein erlend fjárfesting skapar ekki einungis störf og verðmæti heldur eykur fjölbreytni í atvinnulífi og í útflutningsgreinum, ef vel er á málum haldið, en aukin fjölbreytni í útflutningsgreinum er mikilvægt markmið.

Lagt er til að Alþingi feli stjórnvöldum að sækjast sérstaklega eftir fjárfestingu sem:

  1. Stuðlar að fjölbreytni atvinnulífs.
  2. Styður við verndun og nýtingu umhverfis á sjálfbærum grunni.
  3. Nýtir nýjustu tækni.
  4. Skapar í gegnum framleiðsluferli sem mestan virðisauka innanlands.
  5. Skapar hlutfallslega mörg störf og hátt hlutfall verðmætra starfa.
  6. Stuðlar að eflingu rannsókna og þróunar og öflun nýrrar þekkingar.
  7. Er arðsöm og skilar hlutfallslega miklum skatttekjum.
  8. Skapar ný tækifæri eða tækifæri sem talin eru æskileg til að styrkja innlenda starfsemi sem fyrir er.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta