Hoppa yfir valmynd
7. desember 2011 Utanríkisráðuneytið

Samstarf við Rauða kross Íslands

AlthjodaradstefnaICRU
AlthjodaradstefnaICRU

Dagana 28. nóvember til 1. desember síðastliðinn fór fram 31. alþjóðaráðstefna Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Genf. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Veröldin okkar. Þú átt leik.“ Á ráðstefnunni flutti Haukur Ólafsson, formaður sendinefndar Íslands og deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, ávarp þar sem lögð var áhersla á eflingu alþjóðlegrar mannúðaraðstoðar á grundvelli Genfarsamninganna frá 1949 og viðbótarbókana þeirra.

Á alþjóðaráðstefnunni undirrituðu formaður íslensku sendinefndarinnar og Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands, sameiginlegar heitstrengingar stjórnvalda og Rauða kross Íslands um samstarf á árunum 2011-2015. Þær varða m.a. gerð samstarfsyfirlýsingar milli utanríkisráðuneytisins og Rauða kross Íslands fyrir árin 2011-2015, um afmörkuð verkefni Rauða krossins, kynningu á alþjóðlegum mannúðarrétti og gagnkvæma upplýsingagjöf um alþjóðleg mannúðarmál.

Þá verður á vegum innanríkisráðuneytisins endurskoðuð löggjöf um útlendinga með mannúðarsjónarmið að leiðarljósi. Í þessu felst m.a. að leitast verður við að stytta málsmeðferðartíma hælisleitenda og skoða sérstaklega stöðu viðkvæmra hópa innflytjenda og hælisleitenda. Þar að auki mun á tímabilinu verða unnið að undirbúningi fullgildingar alþjóðasamninga um ríkisfangsleysi frá 1954 og 1961. Ennfremur er stefnt að því að greina mögulegar hindranir og eftir atvikum endurskoða löggjöf og verklag í tengslum við veitingu neyðaraðstoðar við Ísland ef til alvarlegra hamfara kæmi.

Að auki tók Ísland þátt í sameiginlegu áheiti Norðurlandanna (landsfélög og stjórnvöld) um hlutlausa og sjálfstæða mannúðaraðstoð á alþjóðavettvangi.

Hjálagt fylgir ávarp íslenskra stjórnvalda á alþjóðaráðstefnunni (pdf).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta