Embætti forstöðumanns fangelsins á Kvíabryggju laust til umsóknar
Innanríkisráðuneytið hefur auglýst laust til umsóknar embætti forstöðumanns fangelsisins á Kvíabryggju. Umsóknarfrestur er til 28. desember og skulu umsóknir berast ráðuneytinu í tölvupósti á netfangið [email protected] eða skriflega til innanríkisráðuneytis, Sölvhólsgötu 7, 150 Reykjavík.
Auglýsingin fer hér á eftir:
Innanríkisráðuneytið auglýsir embætti forstöðumanns fangelsisins á Kvíabryggju laust til umsóknar. Miðað er við að innanríkisráðherra skipi í embættið frá og með 31. janúar 2012 til fimm ára, sbr. 5. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Laun eru samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármálaráðherra og viðkomandi stéttarfélags. Fangelsi ríkisins eru starfrækt á grundvelli laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 og reglugerðar nr. 961/2005.
Forstöðumaður fangelsis ber ábyrgð á að fangelsið sem hann stýrir starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Hann ber ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma séu innan þess fjárhagsramma sem ákveðinn er í samráði við Fangelsismálastofnun og að fjármunir séu nýttir á eins árangursríkan hátt og kostur er. Forstöðumaður ber ábyrgð á daglegum rekstri fangelsis og gefur fyrirmæli þar að lútandi í samræmi við lög og reglugerðir. Þá ber hann ábyrgð á starfsmannahaldi, skipulagi öryggis og þjónustu í fangelsinu. Forstöðumaður sér til þess að starfsmenn fangelsisins ræki störf sín af alúð og samviskusemi þannig að föngum sé tryggð örugg og skipuleg fangavist, að mannlegrar virðingar sé gætt og að fangar fái þá þjónustu og aðhlynningu sem þeim ber. Forstöðumaður hefur, samkvæmt ákvæðum laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005, ákvörðunarvald um ýmis atriði er varða réttindi og skyldur fanga. Nánari upplýsingar um starfsemi fangelsisins á Kvíabryggju má finna á http://www.fangelsi.is/ .
Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um, eftir því sem við á: 1) menntun, 2) reynslu af störfum innan fullnustu- og refsivörslukerfisins, 3) reynslu af stjórnsýslustörfum, 4) reynslu af stjórnun og rekstri stofnana eða fyrirtækja, þ.m.t. starfsmannahaldi, áætlanagerð og verkefnastjórnun, 5) upplýsingar sem snúa að andlegu atgervi, mannlegum samskiptum og sjálfstæði í störfum, 6) upplýsingar um þrjá núverandi eða fyrrverandi samstarfsmenn sem geta veitt upplýsingar um störf, samstarfshæfni og aðra hæfni umsækjanda, 7) sakarvottorð.
Umsóknir óskast sendar rafrænt á netfangið [email protected] eða skriflega til innanríkisráðuneytis, Sölvhólsgötu 7, 150 Reykjavík.
Til þess að hraða afgreiðslu umsókna og bréfaskiptum skulu umsækjendur gefa upp tölvupóstfang sem notað verður til að eiga öll samskipti við umsækjendur.
Konur jafnt sem karlar eru hvattar til að sækja um. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun liggur fyrir.
Umsóknir skulu berast innanríkisráðuneytinu eigi síðar en 28. desember n.k. Nánari upplýsingar um starfið veita Ingilín Kristmannsdóttir, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, í síma 545 9000 og Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, í síma 520 5000.